Clint Eastwood leitar að 100 hraustum Austfirðingum
Leikstjórinn margrómaði Clint Eastwood verður með leikaraprufur fyrir nýjustu mynd sína, sem til stendur að taka upp á Austurlandi, klukkan 14:00 á Hótel Héraði í dag. Leitað er að 100 hraustum Austfirðingum til að leika í bardagasenum myndarinnar.
Frá þessu er greint í nýjasta tölublaði Austurgluggans. Eastwood ætti vart að þurfa að kynna fyrir kvikmyndaáhugamönnum en hann lék á sínum tíma í myndum eins og The Good, The Bad & The Ugly og Dirty Harry. Hin síðustu ár hefur hann helgað sig leikstjórn og meðal annars tekið upp stórmyndir á borð við Flags of Our Fathers á Íslandi.
Þessi nýjasta mynd hans verður byggð á tölvuleiknum World of Warcraft sem er einn vinsælasti fjölspilunarleikur heims. Eastwood hefur verið síðustu daga á Austurlandi við leit að hentugum tökustöðum. Hann verður síðan á Egilsstöðum í dag að leita að leikurum.