Dæmd fyrir að nota Íslykil fyrrum sambýlismanns til að skipta um eiganda bifreiðar

Héraðsdómur Austurlands hefur sakfellt konu fyrir að hafa notað rafræn skilríki fyrrverandi sambýlismanns síns til þess að greiða fyrir eigendaskiptum á bifreið sem hún hafði með sér vil skilnað þeirra. Konan hélt því fram að hún hefði ekki áttað sig á að hún væri að brjóta lög með verknaðinum.

Þegar parið skildi ók konan úr hlaði á fólksbifreið með kerru aftan í sem á voru lausamunir í hennar eigu á búinu. Nokkrum dögum síðar sendi hún inn beiðni um eigendaskipti á bílnum, sem yrði framvegis skráður hennar, og notaði Íslykil mannsins til að samþykkja viðskiptin fyrir hans hönd inni á vef Samgöngustofu.

Þá fór hún inn á heimabanka mannsins og milli þaðan rúmar 2000 krónur fyrir eigendaskiptunum. Upphæðina endurgreiddi hún strax.

Bifreiðin hafði verið í eigu parsins í rúmt ár fyrir skilnaðinn. Upphafleg kaup voru greidd af konunni þótt bifreiðin væri skráð á manninn. Hún bar fyrir dómi að hún hefði rætt um vilja sinn til að breyta eignarhaldinu en hann neitaði að það hefði nokkurn tíman borið á góma. Hann hefði litið á bifreiðina sem sameign þeirra. Af eigendaskiptunum hefði hann fyrst vitað þegar símaskilaboð bárust frá Samgöngustofu um að þau væru afstaðin.

Sá um fjármál heimilisins

Konan kvaðst mest alla sambúðina hafa séð um fjármál heimilisins og meðal annars sótt um rafræn skilríki fyrir hönd mannsins þar sem hann hefði ekki verið laginn á tölvur. Hún taldi sig því hafa haft munnlegt umboð til að ganga frá eigendaskiptunum. Þetta umboð hefði aldrei verið afturkallað.

Við skýrslutöku hjá lögreglu sagðist hún hafa gert það í hugsunarleysi og ekki gert sér grein fyrir að hún gæti verið að brjóta lög. Hún hefði talið best að ganga frá hlutunum strax og hún væri í raun að gera manninum greiða við að losa hann við gamlan bíl sem hann hefði ekki gert neinar athugasemdir við að hún æki í burtu á.

Maðurinn sagðist hafa veitt konunni leyfi til að sækja um rafræn skilríki og sjá um fjármálin fyrir hans hönd. Hann hefði aldrei bannað henni það en hann hefði yfirleitt verið viðstaddur. Undir lok sambúðarinnar hefði henni tekist að kenna honum það vel að hann gat orðið bjargað sér sjálfur. Hann hélt því fram að við brottför hefði hann bannað konunni að nota rafrænu skilríkin. Hann kvaðst ekki hafa orðið fyrir fjárhagslegu tjóni þar sem hún endurgreiddi honum eigendaskiptayfirlýsinguna.

Ekki refsiverð háttsemi

Í niðurstöðu dómsins segir að sannað þyki að konan hafi gerst sek um skjalafals með að skrá sig inn með skilríkjum mannsins og villa þar með um fyrir starfsmönnum Samgöngustofu. Ekki væri hins leitt að því líkur að hún hefði ekki heimildi til að ganga frá eigendaskiptunum. Þar sem háttsemi hennar helgaðist ekki af staðreyndavillu leiddi verknaðurinn ekki til refsingar.

Í ljósi þessa, sem og að konan greindi greiðlega frá atvikum og á ekki brotaferil að baki var ákvörðun um refsingu frestað í tvö ár, svo framarlega sem konan haldi skilorð. Konan þarf hins vegar að greiða sakarkostnað, tæpar 900 þúsund krónur.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar