Dæmd í fangelsi fyrir fíkniefnaakstur
Héraðsdómur Austurlands dæmdi í síðustu viku konu á fertugsaldri í 30 daga fangelsi fyrir að hafa keyrt bíl undir áhrifum fíkniefna. Konan á að baki langan brotaferil.Konan var í síðustu viku dæmd fyrir að hafa ekið ökutæki undir áhrifum fíkniefna en lögreglan hafði afskipti af henni í byrjun maí á bílaplani við verslunarkjarna á Egilsstöðum. Í blóði hennar fundust leifar af bæði kannabisi og amfetamíni.
Þetta er í annað skiptið á árinu sem konan er dæmd fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna, fyrra atvikið átti sér stað á Seyðisfirði í byrjun árs. Hún var þá dæmd í 30 daga fangelsi og svipt ökuréttindum ævilangt.
Konan á þó nokkurn brotaferil að baki. Á síðustu fjórum hefur hún tvisvar hlotið refsingar fyrir þjófnað og nú fjórum sinnum fyrir fíkniefnaakstur. Þá var hún í lok júní dæmd fyrir hlutdeild í stórfelldu fíkniefnasmygli auk vörslu efna.
Konan játaði brot sitt skýlaust. Hún var dæmd í 30 daga fangelsi og svipt ökurétti ævilangt. Þá var henni gert að greiða rúmar 400.000 í sakarkostnað, þar með talda þóknun verjanda síns.