Dæmdur fyrir að ráðast á þrjá

Karlmaður á þrítugsaldri var nýverið dæmdur í 45 daga skilorðsbundið fangelsi í héraðsdómi Austurlands fyrir að ráðast á þrjá aðra á veitingastað. Einn þeirra stangaði hann fram af palli og niður í fjöru.

Atvikið átti sér stað um sjómannadagshelgina á Fáskrúðsfirði í fyrra.

Maðurinn réðist á þann fyrsta með að taka í skyrtubrjóst hans og henda honum í gólfið og fylgdi því síðar eftir með að taka hann hálstaki.

Þeim næsta hrinti hann aftur á bak af stóli þannig hann datt í gólfið. Sá þriðji stóð á palli fyrir utan veitingastaðinn. Þann skallaði maðurinn í bringuna þannig hann féll um metra og lenti á bakinu í fjörunni.

Allir meiddust í árásinni en enginn þó alvarlega. Í niðurstöðu dómsins segir að sá sem féll fram af pallinum hafi verið heppinn að slasast ekki meira.

Ákærði játaði árásirnar og sýndi iðrun. Eitt þeirra vitna sem kallað var til bar að hann hefði reiðst vegna ósæmilegs orðbragðs mannanna við unnustu hans. Ekki eru færðar sönnur á orðaskipti milli þremenninganna og stúlkunnar en dómurinn telur að geðshræring hans hafi mögulega tengst einhverju sem þeir hafi sagt.

Dómurinn mat 45 daga skilorðsbundið fangelsi til tveggja ára hæfilega refsingu. Enginn sakarkostnaður féll til í málinu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.