Dæmdur fyrir ofbeldi gagnvart sambýliskonu og fyrrum kærustu

Héraðsdómur Austurlands hefur dæmt karlmann á fertugsaldri í 10 mánaða fangelsi fyrir ofbeldi í garð fyrrum kærustu, núverandi sambýliskonu og sjúkraflutningamanni. Dómurinn er skilorðsbundinn þar sem maðurinn þykir hafa tekið sig á í lífinu en honum verður skipaður tilsjónarmaður á meðan skilorðinu stendur.

Manninum var í fyrsta lagi gefið að sök að hafa, snemmsumars 2022, ráðist á þáverandi kærustu sinni með að slá í andlit hennar, rífa í hár, meina henni útgöngu með að standa fyrir útidyrahurð og draga hana síðan aftur inn í húsnæðið eftir að henni hafði tekist að komast út. Konan nefbrotnaði í átökunum.

Maðurinn var einnig ákærður fyrir þrjú brot í garð núverandi sambýliskonu sinnar á árinu 2023. Í mars hafði hann slegið hana í andlit og rifið í hár hennar. Í september það ár annað skiptið ruðst inn á heimili hennar með að sparka upp útidyrahurð en um leið klemmt hana milli stafs og hurðar þannig að hún meiddist. Í öðru atviki sama dag á hann að hafa hent í hana stól.

Í dóminum kemur fram að þegar lögreglu bar að garði var maðurinn orðinn stjórnlaus og hafði, miðað við framburð vitna, í hótunum við flesta sem komu nærri. Hann var ákærður fyrir að hafa hótað varaslökkviliðsstjóra, sem var á vettvangi sem sjúkraflutningamaður, og fjölskyldu hans auk þess að slá og sparka í varaslökkviliðsstjórann.

Síðasta atvikið átti sér stað viku síðar er maðurinn hafði ráðist aftur á sambýliskonu sinnar. Í því atviki var honum meðal annars gefið að sök að hafa tekið hana hálstaki og hert að öndunarvegi hennar.

Breyttur framburður fyrir dómi


Fyrir dómi játaði maðurinn sakargiftir gagnvart kærustunni fyrrverandi en neitaði sakargiftum gagnvart sambýliskonunni. Hann féllst þó á kröfu hennar um skaðabætur.

Í dóminum kemur fram að sambýliskonan hafi fyrir dómi nýtt sér rétt til að bera ekki vitni. Hún hafði áður í málinu óskað eftir að ekki yrði gefin út ákæra enda býr fólkið saman og eignast barn eftir þau atvik sem um ræðir. Þá hafi maðurinn tekið á áfengisneyslu sinni.

Konan hafði þó áður lýst atganginum hjá lögreglu. Fyrir dómi gaf maðurinn ýmsar skýringar á ólíkri túlkun þeirra á því sem gengið hefði á svo sem í einhverjum tilfellum hefði hún hafið átökin eða ekki verið ásetningur hans hendur óheppni að hún meiddist. Í einhverjum tilfellum stangaðist sá framburður á við fyrri skýrslur af honum hjá lögreglu. Í enn öðrum atriðum vildi maðurinn ekki skýra nánar hvað hefði gerst og nýtti sér rétt sinn til að tjá sig ekki.

Hann viðurkenndi að hafa verið stjórnlaus gagnvart sjúkraflutningamönnunum og að viðhaft dónalegt orðbragð en neitaði að hafa hótað þeim eða slegið í varaslökkviliðsstjórann. Þá reyndi hann halda því fram að varaslökkviliðsstjórinn hefði ekki verið einkennisklæddur en maðurinn var ákærður brot fyrir valdstjórninni með að ráðast á opinberan starfsmann við skyldustörf. Varaslökkviliðstjórinn sagðist ekki hafa orðið fyrir skaða en á móti aldrei orðið vitni að slíkri framkomu á ferlinum.

Sakfelldur í öllum ákæruliðum


Þrátt fyrir neitun og að yfirheyrslugögn séu ekki fullnægjandi sönnun var maðurinn sakfelldur í öllum ákæruliðum. Til viðbótar byggir dómurinn á rannsóknargögnum lögreglu svo sem ljósmyndum, framburði vitna meðal annars nágranna og annarra sjúkraflutningamanna, lögregluþjóna sem og læknisvottorðum og vitnisburði lækna.

Í niðurstöðu dómsins segir að maðurinn hafi sýnt einbeittan brotavilja og framið alvarleg brot í skjóli trúnaðartrausts gagnvart konunum. Fram er þó tekið að hagir hans séu breyttir í dag og hann hafi leitað sér aðstoðar vegna síns vanda. Það og tafir á meðferð málsins hjá lögreglustjóraembættinu valda því að dómurinn er skilorðsbundinn til þriggja ára.

Á þeim tíma þarf maðurinn þó að hlíta fyrirmælum umsjónarmanns sem Fangelsismálastofnun skipar. Umsjónarmaðurinn getur gefið fyrirmæli um hvar maðurinn dvelur, vinnur, stundar nám, hverja hann umgengst eða gerir í frítímasínum.

Maðurinn er dæmdur til að greiða hvorri konu 850 þúsund í miskabætur. Hann þarf einnig að greiða 3,4 milljónir í málskostnað en fjórðungur eða 1,2 milljónir, greiðist úr ríkissjóði.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar