Dæmdir fyrir smygl um Mjóeyrarhöfn

Landsréttur staðfesti fyrir helgi dóm héraðsdóms yfir tveimur fyrrum áhafnarmeðlimum hjá Eimskipi sem smygluðu töluverð magni áfengis og tóbaks um Mjóeyrarhöfn í nóvember 2015.

Mennirnir voru sakfelldir fyrir að hafa flutt til landsins 213,5 lítra af sterku áfengi, mest vodka, 26,2 lítra af léttvíni, 179 karton af vindlingum, tæp 38 kíló af munntóbaki og 5,75 kíló af nettóbaki, auk lítilræðis af líkjör.

Mennirnir viðurkenndu að hafa keypt varninginn í erlendum höfnum og um borð í skipinu.

Skip þeirra kom að landi í Reykjavík þann 3. nóvember árið 2015. Þar fóru mennirnir í land, án þess að gefa tollayfirvöldum upp varninginn en ný áhöfn tók við skipinu. Skipið hélt síðan norður fyrir land en gámur með vörum félaganna var fluttur frá borði í Mjóeyrarhöfn þremur dögum síðar og fjarlægður út fyrir geymslusvæði fyrir ótollgreiddar vörur, að undirlagi smyglaranna.

Tvímenningarnir flugu til Egilsstaða nokkrum dögum síðar, tóku bílaleigubíl þar og keyrðu til Reyðarfjarðar til að sækja góssið. Þeir voru stöðvaðir rétt utan Vík í Mýrdal eftir að lögreglu barst ábending um smyglið.

Fyrir dómi kvaðst lögreglumaður þar hafa veitt því athygli að mikið magn af dóti hefði verið í farangursgeymslu og aftursæti er bílnum var ekið í gegnum þorpið. Var þar um að ræða smyglvarninginn, pakkað í svarta ruslapoka sem merktir voru með gælunöfnum.

Mennirnir viðurkenndu brot sín að miklu leyti við yfirheyrslur hjá lögreglu þótt þeir færu síðar fram á sýknu þegar málið var komið fyrir dóm. Bentu þeir meðal annars á að þeir hefðu ekki verið í áhöfn skipsins þegar það fór til Reyðarfjarðar og ekki tekið þátt í að flytja varninginn frá borði. Dómurum þótti hins vegar fullsannað, með játningu, að þeir hefðu ekki látið tollyfirvöld vita af varningnum.

Þeir voru báðir dæmdir í 30 daga fangelsi en ákveðið að skilorðsbinda það vegna mikils dráttar á málinu hjá lögreglu. Þeir voru dæmdir til að greiða málskostnað auk þess sem varningurinn var gerður upptækur. Annar mannanna var hins vegar sýknaður og fékk að halda sjö lítrum af sterku áfengi auk tæplega 900 gramma af munntóbaki sem fundust við húsleit á heimili hans.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.