Dagmar Ýr nýr sveitarstjóri Múlaþings

Dagmar Ýr Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar, hefur verið ráðin sveitarstjóri Múlaþings frá og með áramótum. Níu einstaklingar sóttu um starfið en meira en helmingurinn dró umsóknir sínar til baka eftir að óskað var eftir upplýsingum um umsækjendur.

Dagmar er með B.A. gráðu í fjölmiðlafræði frá Háskólanum á Akureyri. Síðan um mitt ár 2023 hefur hún verið framkvæmdastjóri Austurbrúar. Áður starfaði Dagmar í tíu ár sem yfirmaður samskipta og samfélagsmála hjá Alcoa Fjarðaráli, sem forstöðumaður markaðs- og kynningarsviðs hjá Háskólanum á Akureyri í fimm ár og þar áður fréttamaður á N4 sjónvarpi Norðurlands í eitt ár. Dagmar hefur auk þess setið í ýmsum stjórnum, svo sem í heimastjórn Fljótsdalshéraðs, í fagráði Seyðisfjarðarkaupstaðar, í stjórn Stapa lífeyrissjóðs og í fagráði Uppbyggingarsjóðs Austurlands.

Dagmar er gift Guðmundi Hinriki Gústavssyni, leiðtoga hjá Alcoa Fjarðaráli og eiga þau tvo syni. Þau búa á Egilsstöðum.

„Ég er þakklát fyrir það traust sem sveitastjórnarfulltrúar Múlaþings sýna mér með því að bjóða mér að taka við þessu veigamikla starfi. Það er í stór spor að fylla enda hefur Björn Ingimarsson stýrt sveitarfélaginu af mikilli fagmennsku og alúð síðan það varð til. Ég hlakka til að takast á við spennandi verkefni sem bíða mín í nýju starfi og ekki síst að kynnast og starfa með öllu því góða og reynslumikla starfsfólki sem vinnur hjá Múlaþingi.

Það verður erfitt að kveðja Austurbrú og samstarfsfólk mitt þar og þótt ég hafi aðeins staldrað stutt við hjá stofnuninni hef ég öðlast ómetanlega reynslu sem mun nýtast mér í nýju starfi,“ er haft eftir Dagmar í tilkynningu.

Loks upplýst um umsækjendur


Umsóknarfrestur rann út 8. október. Daginn eftir óskaði Austurfrétt eftir upplýsingum um umsækjendur, með vísan til upplýsingalaga þar sem segir að skylt sé að upplýsa um nöfn umsækjenda og starfsheiti um opinber störf sé þess óskað.

Í tilkynningu Múlaþings kemur fram að fimm af þeim níu sem sóttu um hafi dregið umsókn sína til baka eftir að beiðnin barst. Við það er umsækjendum gjarnan gert ljóst að beðið hafi verið um upplýsingarnar og þeim gefinn kostur á að draga sig til baka. Í auglýsingu var farið fram á að umsækjendur hefðu þekkingu á opinberri stjórnsýslu.

Viku eftir beiðnina bárust Austurfrétt þær upplýsingar frá mannauðsfyrirtækinu sem veitti Múlaþingi ráðgjöf í ferlinu að vegna „anna og óviðráðanlegra orsaka“ væri ekki hægt að afhenda listann á þeim tímapunkti. Það yrði gert „eftir helgi.“

Í tilkynningunni eru nöfn þeirra fjögurra sem ekki drógu sig til baka. Þau eru:

Dagmar Ýr Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri
Gunnlaugur Aðalbjarnarson, framkvæmdastjóri fjármála
Hilmar Kristinsson, verkefnastjóri
Hlynur Jónsson, lögmaður

Mynd: Austurbrú

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar