Davíð Þór þokast nær framboði

Davíð Þór Jónsson, héraðsprestur á Austurlandi, segist hafa fengið töluverðan stuðning um að bjóða sig fram til forseta Íslands. Hann segist færast nær þeirri ákvörðun að taka slaginn.

„Ég hef verið að hugsa málið og ráðfært mig við fólk. Ég hef fengið mjög mikla hvatningu þannig ég er svo sannarlega ekki hættur við. Ég hef þokast nær því að taka þá ákvörðun að láta verða af því, frekar en ekki,“ er haft eftir Davíð Þór í frétt á mbl.is.

Hann segist undanfarnar vikur hafa símtöl og skeyti með stuðningsyfirlýsingum. Hann sé ekki byrjaður að safna undirskriftum en hafi sjálfboðaliða til að ganga í verkið.

„Ég fer að hallast að því að framboð væri raunhæft og ég fengi þann stuðning sem ég þyrfti til að geta átt möguleika á að ná kjöri.“

Davíð Þór kveðst knúinn áfram af „skyldurækni og réttlætiskennd.“ Meðal þess sem hann hyggst leggja áherslu á er aðgerðaáætlun gegn hatri.

Endanlega ákvörðun hyggst hann kynna á næstu vikum. „Þó að það sé frábært að búa hér á Eskifirði þá er maður pínulítið einangraður. Ég á erindi til Reykjavíkur á næstu vik­um og þá mun ég kynna ákvörðun mína.“

Davíð Þór er ekki ókunnugur forsetaframboðum því hann var í hópi þeirra sem studdu framboð Ólafs Ragnars Grímssonar árið 1996. Í Forsetabókinni, sem skrifuð var um framboðið eftir kosningar er sagt frá því hvernig stuðningsmenn Ólafs Ragnars vörðu hann fyrir miklum árásum í dálkum blaðanna enda framboðið umdeilt.

Meðal annars er greint frá ritdeilu sem Birgir Hermannsson hóf við Hannes Hólmstein Gissurarson í Alþýðublaðinu, en þeir kenna báðir stjórnmálafræði á háskólastigi í dag.

„Upp kom sú hugmynd að halda Hannesi við efnið í ritdeilu í Alþýðublaðinu það sem eftir lifði til kosninga og var það kallað „að dekka Hannesinn“ og líkingin tekin úr íþróttamáli.

Einnig þótti sýnt að þótt Birgir væri duglegur hefði hann ekki ótakmarkað úthald í ritdeilu við afkastamann eins og Hannes Hólmsstein.

Því var gripið til þess ráðs að „að skipta inn á“ og tóku þátt í því ágætir menn á borð við Davíð Þór Jónsson skemmtikraft og Hrannar Arnarsson framkvæmdastjóra.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.