Deiliskipulag Holtahverfis á Vopnafirði staðfest
Skipulagsstofnun hefur staðfest deiliskipulag fyrir Holtahverfi sem er efst í byggðinni á Vopnafirði. Meðal markmiða skipulagsins er að nýta betur auð svæði undir íbúðahúsalóðir.Skipulagið tekur yfir íbúðagöturnar Þverholt, Vallholt, Steinholt og Sigtún. Til vesturs er athafnasvæði, til suðurs útivistar- og skógræktarsvæði og íþróttasvæðið til norðurs.
Í greinargerð skipulagsins segir að eitt af markmiði þess sé að nýta betur auð svæði undir íbúðahúsalóðir. Á þeim lóðum er samkvæmt skipulaginu gert ráð fyrir fjórum einbýlishúsum, tveimur parhúsum og loks þriggja íbúða raðhúsi.
Svæðið byggðist að mestu upp á árunum upp úr 1980. Tvö hús við Sigtún eru töluvert eldri, hið eldra 1940. Þrjú hús eru byggð um miðjan tíunda áratuginn.
Á svæðinu er meðal annars Vigdísarklettur, sem ávallt hefur verið verndaður til minningar um þjóðsöguna sem hann dregur nafn sitt af. Verslunarstjórann á Vopnafirði mun hafa dreymt að til hans kæmi ekkja sem bað um úttekt því hún ætti ekki mat handa börnum sínum. Hún gerði grein fyrir að hún væri huldukona og byggi í klettinum. Verslunarstjórinn afhenti henni vörur og varð eftir það gæfumaður.
Skipulagið var fyrst kynnt vorið 2022. Nokkrar umsagnir bárust í ferlinu sem tekið var tillit til en þær kölluðu ekki á meiriháttar breytingar.