Deilur í hreppsnefnd Vopnafjarðar um tímabundna ráðningu verkefnastjóra
Minnihlutinn í hreppsnefnd Vopnafjarðarhrepps gagnrýnir hvernig staðið var að ráðningu verkefnastjóra sveitarstjórnar á sama tíma og auglýst sé eftir sveitarstjóra til frambúðar. Oddviti sveitarstjórnar segir að vinna þurfi að framgangi mikilvægra mála í hreppnum. Hann óttast ekki að tímabundin ráðningin fæli umsækjendur frá.Sveitarstjórn samþykkti á aukafundi á þriðjudaginn í síðustu viku að ráða Valdimar O. Hermannsson, fyrrum formann Sambands sveitarfélaga á Austurlandi, sem verkefnastjóra. Valdimar tók til starfa nú á þriðjudag og er ráðinn í 80% starf út maí. Sara Elísabet Svansdóttir lét af störfum sveitarstjóra í byrjun mars.
Minnihluti Vopnafjarðarlistans greiddi atkvæði gegn ráðningu Valdimars og lagði á fundinum alls fram fjórar bókanir þar sem gagnrýnd eru vinnubrögðin við ráðninguna, einkum að ráðið sé á sama tíma og auglýst sé sveitarstjóra til frambúðar auk þess sem gerð er athugasemd við lögmæti fundarins.
Samkvæmt fundargerð sveitarstjórnar frá fimmtudeginum 21. mars var í upphafi þess fundar óskað eftir að bæta ráðningu verkefnastjórans við dagskrá fundarins. Fyrir breytingu þarf aukinn meirihluta og var það fellt með atkvæðum minnihlutans.
Fundurinn ekki auglýstur á vef Vopnafjarðarhrepps
Aukafundi sveitarstjórnar skal boða með minnst sólarhrings fyrirvara og að sögn Bjarts Aðalbjörnssonar, oddvita Vopnafjarðarlistans, var strax eftir hreppsnefndarfundinn boðað til fundar daginn eftir. Enginn aðalfulltrúa listans var hins vegar laus þann dag.
Í einni bókunum listans frá því í síðustu viku segir að sá fundur hafi verið boðaður án samráðs og oddviti sveitarstjórnar hafi síðan neitað beiðnum um að færa fundinn fram yfir helgina. „Með hörku“ hafi verið samþykkt að halda fundinn þriðjudaginn 26. mars.
Í upphafi þess fundar bókaði Vopnafjarðarlistinn athugasemd við lögmæti fundarins þar sem hann hefði ekki verið auglýstur á heimasíðu hreppsins með sólarhrings fyrirvara, eins og kveðið sé á um í samþykktum sveitarfélagsins. Í samtali við Austurfrétt segir Bjartur að listinn áformi ekki að halda þeim athugasemdum frekar áfram, svo sem með kvörtunum til innanríkisráðuneytisins, heldur viljað vekja meirihluta Framsóknarflokks til vitundar um að fundurinn og ákvarðanir hans væru á gráu svæði og þar með alfarið á ábyrgð meirihlutans.
Axel Örn Sveinbjörnsson, oddviti sveitarstjórnar, segir fundinn vera löglegan þar sem kjörnir fulltrúar hafi sannarlega verið boðaðir með sólarhrings fyrirvara. Því miður hafi ekki náðst að setja tilkynningu á vef hreppsins en ekki sé algilt að aukafundir sveitarstjórna séu auglýstir.
Meginreglur sveitarstjórnalaga eru að fundir séu auglýstir þannig íbúar geti nýtt rétt sinn til að mæta og fylgjast með því sem fram fer. Frá því er undantekning sé efnið háð þagnarskyldu. Axel bendir á að þótt fundurinn hafi ekki verið auglýstur hafi fjórir áhorfendur mætt og fátítt sé yfir höfuð að íbúar mæti á hreppsnefndarfundi á Vopnafirði.
Vildu að hreppsnefnd tæki verk sveitarstjóra
Eftir að meirihlutinn lagði fram ráðningarsamninginn svaraði minnihlutinn með frávísunartillögu. Í bókun Vopnafjarðarlistans segir að ekki sé þörf á að taka erindið fyrir þar sem umsóknarfrestur um stöðu sveitarstjóra sé til 11. apríl, níu dögum eftir að gildistöku ráðningarsamningsins. Það sé ankannalegt og vafasamt upp á jafnræði gagnvart öðrum umsækjendum að ráða sem verkefnastjóra einstakling sem hafi sýnt áhuga á sveitarstjórastólnum.
Þá hafi meirihlutinn áður ætlað sér að ráða hann sem sveitarstjóra án auglýsingar. Í seinni bókunum er hnykkt á þessu með orðum um að minnihlutinn hafi þurft að berjast hart gegn að málið yrði klárað án auglýsingar, þrátt fyrir að hreppsráð hafi á fundi 7. mars samþykkt auglýsingu.
Eftir að frávísunartillagan var felld lagði Vopnafjarðarlistinn fram aðra bókun þar sem því er lýst að ekki sé þörf á að ráða verkefnastjóra tímabundið heldur eigi hreppsnefnd ásamt öðru starfsfólki hreppsins að geta leyst úr verkefnum næstu vikna. Slíkt myndi bæði spara fjármuni og efla traust innan sveitarstjórnar sem myndi bæta samvinnuna til frambúðar.
Að svo búnu var ráðningarsamningurinn samþykktur með breytingum af meirihlutanum en minnihlutinn greiddi atkvæði gegn. Í síðustu bókum Vopnafjarðarlistans segir að mótatkvæðin beinist að gjörningnum en með þeim sé engin afstaða tekin til einstaklingsins.
Verkefni sem geta ekki beðið
Axel segir að stór verkefni bíði sveitarfélagsins sem þörf sé að drífa áfram og þess vegna hafi verið ákveðið að ráða einstakling með mikla reynslu af sveitarstjórnarmálum, en auk ýmissa trúnaðarstarfa í austfirskum sveitastjórnarmálum var Valdimar bæjarstjóri á Blönduósi 2018-22.
„Yfirfærsla Sundabúðar er stórt verkefni, síðan eru það hafnarframkvæmdir og viðhaldsverkefni sem. Það eru því ýmis verkefni sem þarfnast yfirlegu en þarf að drífa áfram og er gott að fá að fá reyndan einstakling inn í.,“ segir Axel sem gegndi störfum sveitarstjóra tímabundið í mars. „Minn tími hefur farið í að ná utan um verkefnin.“
Hefur engin áhrif á auglýsingaferlið
Axel segir að ekkert vilyrði liggi fyrir um að Valdimar haldi áfram sem sveitarstjóri eftir að ráðningartíma hans lýkur og segir ekki rétt að meirihlutinn hafi með afli reynt að ráða hann sem sveitarstjóra áður.
„Á fundum hafa verið ræddar ýmsar leiðir til að leysa það millibilsástand sem ríkir. Trúnaður er nú brostinn um þær. Samningurinn sem var samþykktur stendur. Ef við hefðum viljað ráða Valdimar sem sveitarstjóra þá hefðum við gert það.
Auglýsingaferlið er enn opið og í umsjá Attentus. Það liggja ekki fyrir nein vilyrði og Valdimar er fullmeðvitaður um að þessi tímabundna ráðning kemur honum ekki framar í röðina. Ef hann sækir um starfið þá tekur Attentus við að meta hæfi einstaklinga.“
Axel óttast ekki að ráðningin fæli umsækjendur frá. „Ég hef enga trú á að aðilar sem vilja stíga inn í það krefjandi starfs sem sveitarstjórastaðan er horfi nokkuð á þessa ráðningu. Þeir sem við viljum og þurfum að fá eftir auglýsingu munu mæta, berja í borðið og selja sig sig sem besta aðilann í starfið.“
Trúnaðarbrestur í hreppsnefndinni?
Í síðustu bókun Vopnafjarðarlistans er rifjað upp að litlu hafi munað á framboðunum tveimur í síðustu kosningunum. Listinn kveðst hafa lagt sig fram um góða samvinnu meðan Framsóknarflokkurinn hafi túlkað kosningaúrslitin á þann hátt að hann geti í krafti meirihlutans stjórnar eftir sínu hörfi. Síðustu viku hafi meirihlutinn með vinnubrögðum sínum breikkað bilið í sveitarstjórninni.
Axel hefur áður sagt að trúnaður hefði brostið með opinberun á mögulegum lausnum sem velt hefði verið upp á fundum. Aðspurður um framhaldið um samstarfið í sveitarstjórninni og hvort ráðning verkefnastjórans hafi haft slæm áhrif á það svarar hann að tíminn verði að leiða það í ljós.