Desember einn sá hlýjasti í sögunni
Nýliðinn desembermánuður er einn sá hlýjasti sem mælst hefur á austfirskum veðurstöðvum. Mánuðurinn var um þremur gráðum hlýrri en gengur og gerist.Þetta kemur fram í samantekt Veðurstofu Íslands um tíðarfar í desember. Stofnunin birtir mánaðarlega yfirlit yfir hitatölur af tólf veðurstöðvum.
Hæstur var meðalhitinn á Stórhöfða í Vestmanneyjum en næst hæstur á Dalatanga, 3,6 gráður. Er þetta sjötti hlýjasti desembermánuður sem mælst hefur á stöðinni í 81 árs sögu hennar.
Á Teigarhorni var meðalhitinn 2,8 gráður sem gerir mánuðinn þann áttunda hlýjasta í 146 ára sögu og á Egilsstöðum var meðalhitinn 1,2 gráður og mánuðurinn sá fimmti hlýjasti í 64 ára sögu.
Sérstaka athygli vekur að þetta er umtalsvert hlýrra en gengur og gerist. Samanborið við meðaltal áranna 1961-1990 er mánuðurinn þremur gráðum hlýrri á Dalatanga og Teigarhorni en 3,4 gráðum á Egilsstöðum.
Þegar borið er saman við meðaltal áranna 2007-2018 er mánuðurinn 2,8 gráðum hlýrri á Egilsstöðum en um 2 gráðum á hinum stöðvunum tveimur.
Í samantektinni kemur fram að mesta jákvæða hitavikið miðað við síðustu tíu ár hafi verið í Möðrudal, 3,5 gráður. Þar mældist hins vegar mest frost mánaðarins, -22,5 gráður þann fjórða.
Í samantekt Veðurstofunnar fyrir nóvember kemur einnig fram að hann hafi verið í hlýrra lagi. Meðalhitinn á Dalatanga var 3,8 gráður og Teigarhorni 3,9 en 1,4 á Egilsstöðum. Það er um eða yfir tveimur gráðum meira en meðaltal stöðvanna fyrir árin 1961-1990 en um hálfri gráðu meira en meðaltal undanfarins áratugar.
Útlit er fyrir að hlýindin haldi áfram. Spáð er um og yfir tíu stiga hita á Austfjörðum og Norðurlandi eystra frá því í kvöld og fram á aðfaranótt fimmtudags. Hlýindunum fylgir einnig talsvert hvassviðri.