Díana Mjöll: Það sem stóð upp úr var að komast í tengingu við heimamanninn

Fyrirtæki á sama sviði geta vel starfað saman en samt viðhaldið innri samkeppni. Ferðaklasinn Meet the Locals sem Tanni Travel á Eskifirði hefur byggt upp á Austurlandi síðustu ár er dæmi um það.


„Við vorum árum saman búin að leita að austfirska gullna hringnum og höfum ekki fundið hann enn en það sem stóð upp úr okkar greiningu meðal gesta var að komast í tengingu við heimamanninn,“ segir Díana Mjöll Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri Tanna Travel.

Hún var meðal frummælenda á fundi Austurbrúar og Nýsköpunarmiðstöðvar í gær um búsetuþróun á Austurlandi til ársins 2030. Sérstök áhersla var þar á klasasamstarf og var Meet The Locals klasinn tekinn þar sem dæmi.

„Við erum með marga litla aðila sem fara af stað með hugsjón. Hugsunin er að allir geti starfað saman, bæði litlir og stórir undir okkar hatti.“

Áhersla á íslenska siði

Í ferðum á vegum Meet the Locals er gestum boðið að hitta Austfirðinga. Í boði eru bæjargöngur um austfirsku þorpin, að veiða fisk á bryggjunni á Eskifirði, kvöldmatur á heimili og kennslustund á Skorrastað í hvernig brjóta eigi saman íslenska rjómapönnuköku og borða.

Díana segir gestgjafa fengið sterk jákvæð viðbrögð við heimboðunum og aðsókn í ferðirnar aukist. „Ferðamennirnir koma sem gestir en kveðja sem hluti af samfélaginu. Við leggjum áherslu á íslenska menningu og siði og markmiðið er að fjölga ferðamönnum hér á lágannatíma.

Við vorum á kaupstefnu um daginn þar sem fólk kom í fyrsta skipti til okkar og vissi hvað það ætlaði að kaupa. Áður vorum við spurð hvaðan við værum og það er stórt skref.“

Þurfa stærri veiðarfæri

Ásta Kristín Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Íslenska ferðaklasans og fyrrum atvinnumálafulltrúi Fjarðabyggðar, sagði ferðamennskuna fela í sér mikil tækifæri fyrir landsbyggðina. Útlit er fyrir að greinin verði stærri í landsframleiðslu Íslands í ár en iðnaður og sjávarútvegur til samans.

„Við getum tekið hvern einasta stað á Austurlandi og bent á tækifærin og ný búsetuáfrom sem orðið hafa til vegna fjölgunar ferðamann. Hér er að verða til mikil verðmæti þótt við Austfirðingar séum komin stutt á veg. Við erum með góð og þétt veiðarfæri en þau eru ekki nógu stór.“

Hún sagði vinnu við Áfangastaðinn Austurland dæmi um gott framtak sem líklega ætti eftir að reynast Austfirðingum dýrmætt í framtíðinni.

Búið að kortleggja skapandi samfélagið

Bæði Ásta og Runólfur Steinþórsson frá Háskóla Íslands lögðu áherslu á að fyrirtæki geti viðhaldið samkeppni þótt þau starfi saman. „Það verður til virði sem nýtist öllum,“ sagði Runólfur.

„Framleiðni er mikilvægust fyrir samkeppnishæfni, nýsköpun ýtir undir framleiðni og framleiðni eykur fjárfestingu.“

Annar austfirskur klasi er á sviði skapandi greina. „Við erum kannski þar sem ferðaþjónustan var fyrir mörgum árum síðan,“ sagði Lára Vilbergsdóttir, verkefnastjóri skapandi greina hjá Austurbrú.

„Nú er búið að kortleggja skapandi samfélagið á svæðinu. Í borginni erum fleiri stór fyrirtæki en hér höfum við einstaklinga, marga sprota sem vinna á víðum grunni.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.