Djúp sprunga efst á Snæfelli

Nokkurs konar íshellir virðist opnast að baki jökulsprungu sem uppgötvaðist nærri gönguleiðinni upp að Snæfelli fyrir helgi. Göngufólk er hvatt til að sýna gætni og leita upplýsinga hjá landvörðum áður en lagt er af stað upp fjallið.

„Við skoðuðum sprunguna um helgina. Opið sjálft er eins og faðmur á stærð. Hún er ekki svo djúp næst því en á bakið virðist hún opnast eins og hellir og vera mjög djúp,“ segir Þuríður Skarphéðinsdóttir, landvörður í Snæfellsskála.

Erlendur ferðamaður í gönguhóp lent ofan í opinu í síðustu viku. Hann var í línu og slapp óskaddaður.

Sprungan sjálf er ekki á þeirri gönguleið sem mælt er með til að fara upp á fjallið. „Hún er um 90 metum fyrir ofan þverunina efst á jöklinum. Þar sem við gengum var engin sprunga en það virtust sprungur á þessu svæði þar sem hún var,“ segir Þuríður.

Þar sem aðstæður í fjallinu eru varasamar er áréttað við þá sem hyggja á göngu að hafa samband við landverði í skálanum áður en lagt er af stað. Þá er góður búnaður á borð við GPS tæki nauðsynlegur.

„Það er ekkert mál að fara upp fjallið í góðu skyggni og samtal við landvörð. En í þoku og án búnaðar geta aðstæður vera mjög varasamar,“ segir Þuríður.

Áætlað er að opið verði í skálanum fram til 20. september.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar