Djúpivogur: Skipulag kynnt íbúum í gegnum þrívíddartækni

Djúpavogshreppur hefur gert tillögu um nýtt deiliskipulags fyrir efsta hluta Borgarlands aðgengilega almenningi í gegnum þrívídd. Umhverfissálfræðingur segir sýndarveruleika geta auðveldað kynningu á skipulagi fyrir íbúum sem aftur leiði til betri ákvarðanatöku.

Djúpavogshreppur, í samstarfi við Háskólann í Reykjavík, Reykjavíkurborg og TGJ er þáttakandi í verkefni sem kallast Sjálfbærar borgir framtíðarinnar eða „Cities that Sustain Us“ og er styrkt af Tækniþróunarsjóði.

Í vikunni var þrívíddarteikning af svæðinu gerð aðgengileg almenningi á netsvæði. Það sem er framúrstefnulegast við teikninguna er að hún er lifandi, ef vel er rýnt sést þar manneskja á gangi eftir gangstétt og fuglar fljúga um. Notendur geta einnig frá sjónarhóli sínum horft í mismunandi áttir.

„Þetta verkefni snýst um hvernig við getum aflað betri þekkingar um samspil fólks og umhverfis. Til þess notum við sýndarveruleika.

Með honum getum við búið til framtíðarumhverfi og leyft fólki að upplifa það í fyrstu persónu áður en nokkur nagli er rekinn í spýtu. Við getum fengið viðbrögð og athugasemdir til að bæta gæði umhverfis í takt við það. Með því að vita sálfræðilegu áhrifin í stað þess að hoppa út í djúpu laugina og vona hið besta batnar öll ákvarðanataka þannig að miklir fjármunir sparast,“ segir Páll J. Líndal, doktor í umhverfissálfræði hjá TGJ.

Næst verður hægt að ganga um hverfið

Páll segist ekki vita til þess að lifandi og gagnvirkar þrívíddarteikningar hafi áður verið notaðar í formlegu skipulagsferli hérlendis. Yfirleitt sé um að ræða tölugerðar kyrrmyndir og nýverið hafi verið farið að notast við 360° tækni til að kynna þær.

Hann segir þrívíddarsýnina fyrir Borgarland trúlega aðeins dæmi um það sem koma skal, en þegar hefur sýndarveruleiki verið nýttur til þess að kynna drög að hugmyndum um miðbæjarskipulag á Djúpavogi.

„Við vildum vita fyrst hvernig þetta virkar, hvort nettengingarnar séu nógu góðar til að miðla þrívíddinni. Okkur hefur heyrst þetta virka mjög vel. Næsta skref er að bjóða upp á umhverfi þar sem fólk getur gengið um hverfið og upplifað það.“

Sýndarveruleiki verði sjálfsagður hluti af kynningu skipulags

Síðan er hægt að ganga enn lengra. Páll nefnir að með lítilli fyrirhöfn sé hægt að auka gagnvirkni í sýndarveruleikanum, notandi geti valið um hvort ákveðið hús sé á þremur hæðum eða tveimur. Þá byggi þrívíddarlíkanið sem nú er opinbert á sýndarveruleika sem hægt sé að opna á síðar, ef tæknibúnaður leyfir. Ennfremur er hægt að útbúa spurningalista og mæla líffræðileg viðbrögð við skipulagshugmyndum í sýndarveruleika með búnaði.

„Við erum komin með virkt umhverfi sem fólk getur upplifað. Ég myndi vilja að svona sýndarveruleiki yrði sjálfsagður hluti af skipulagsferli. Fólk skilur ekki teikningar og tengir ekki við kyrrmyndirnar. Þetta eykur samtalið milli íbúa, stjórnvalda og ráðgjafa sem stuðlar að meiri skilningi og sátt og sparar peninga,“ segir Páll.

Deiliskipulagið nær yfir 1,4 hektara svæði í efsta hluta Borgarlands sem hýsir yngstu byggðina á Djúpavogi. Flestar lóðir við götuna eru fullbyggðar en í nýja skipulaginu eru afmarkaðar tvær lóðir sem þegar eru byggðar auk lóða undir sjö einbýlishús og parhús. Athugasemdafrestur við skipulagið er til 1. ágúst.

Hægt er að skoða skipulagið í þrívídd hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.