Dæmdur fyrir að slá lögreglumann hnefahöggi
Karlmaður á þrítugsaldri var nýverið dæmdur til skilorðsbundinnar refsingar í héraðdsómi Austurlands fyrir að slá lögreglumann við skyldustörf hnefahöggi í gagnaugað. Við ákvörðun refsingarinnar var litið til greiðrar játningar og ungs aldurs geranda.
Það var í lok október í fyrra framan við skemmtistaðinn Café Kosý á Reyðarfirði að ákærði sló lögreglumann hnefahöggi í hægra gagnauga og reif síðan í talstöð hans sem lenti í jörðinni.
Ákærði játaði brot sitt skýlaust, bæði hjá lögreglu og fyrir dómi. Hann sagðist iðrast gjörða sinna. Í dómnum er einnig bent á að engir áverkar hafi hlotist af árásinni. Brot gegn lögreglumanni við skyldustörf telst samt alvarlegt.
Ákærði er 24 ára gamall. Hann hefur tvívegis gengist undir sættir hjá lögreglustjóra fyrir brot á umferðarlögum og um ávana- og fíkniefni, í bæði skiptin árið 2010. Það hafði ekki áhrif á ákvörðun refsingarinnar.
Refsingin er 30 daga fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára.