Dæmdur fyrir ofbeldi: Var drukkinn og ætlaði að hjálpa dyraverði

heradsdomur_austurlands_log_1532625740.gif
Tæplega þrítugur karlmaður var í vikunni dæmdur í héraðsdómi Austurlands fyrir valdbeitingu og ofbeldi þegar hann henti öðrum manni út af skemmtistað þannig meiðsli hlutust af. Sá dæmdi, sem er vanur dyravörður en var undir áhrifum að skemmta sér þetta kvöld, taldi sig vera að aðstoða dyraverði staðarins.

Atvikið átti sér stað á skemmtistaðnum Café Kósý á Reyðarfirði síðasta sumar. Brotaþoli hafði lent í orðaskaki og stympingum við ákærða við barinn. Dyravörður hugðist stía þá í sundur og gaf ákærða merki um að aðstoða sig.

Ákærði tók utan um manninn, dró hann með hálstaki út og sleppti honum síðan í jörðina. Dómara þótti sannað að með þessu hefði hann valdið bólgum á hálsi og áverkum fórnarlambsins. Það virtist að auki hafa mátt þola þung högg, líklega spörk, í andlitið. Þau virðist ekki ákærði hafa veitt heldur bárust böndin að félaga hans sem staðið hafði í stympingunum við barinn.

Ákærði hélt því fram að hann hefði tekið utan um fórnarlambið með dyravarðataki en ákærði hefur unnið við dyravörslu í sex ár og hefur réttindi sem slíkur. Hann var hins vegar aðeins að skemmta sér umrætt kvöld og var undir áhrifum áfengis. Í dóminum er tekið fram að dyraverðir hafi mjög takmarkaðar heimildir til valdbeitingar í lögum. Þótt þeir hafi rétt til að kalla aðra sér til aðstoðar hafi ölvaðir aðstoðarmenn alls ekki heimild til valdbeitingar.

Í dóminum var meðal annars notast við upptöku úr eftirlitsmyndavél þetta kvöld. Hún hrakti framburð annars dyravarða staðarins sem sagðist hafa séð ákærða leggja fórnarlambið frá sér fyrir utan staðinn. 

Dómarinn taldi aðgerðir ákærða hafa falið í sér „valdbeitingu og ofbeldi.“ Ákærði var dæmdur til að greiða 100.000 króna sekt og málskostnað, tæpa hálfa milljón, alls tæpar 600.000 krónur.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar