Dómur: Vatnsréttindi Kárahnjúka-virkjunar metin á 1,6 milljarð króna

karahnjukar.jpgHéraðsdómur Austurlands staðfesti í morgun mat meirihluta matsnefndar á verðmæti vatnsréttinda við Jökulsá á Dal og Kelduá í Fljótsdal sem dæmdi landeigendum 1,6 milljarða króna bætur. Dómurinn staðfesti í meginþáttum úrskurð matsnefndar frá sumrinu 2007.

 

Matsnefndin dæmdi á sínum tíma landeigendum bætur upp á 1,6 milljarð króna, eða 1,4% af stofnkostnaði Kárahnjúkavirkjunar. Þar var helst vísað í eldri fordæmi, Blönduvirkjun, sem Landsvirkjun byggði málflutning sinn á. Landeigendur hafa á móti haldið fram að markaðurinn hafi breyst með nýjum raforkulögum árið 2003.

Sannfærandi rök matsnefndar

Dómurinn segir „röksemdir matsnefndar fyrir því að leggja skuli til grundvallar að endurgjald fyrir vatnsréttindi skuli verið 1,4% af stofnkostnaði virkjunarinnar séu sannfærandi og feli í sér sanngjarnt og eðlilegt endurgjald fyrir umrædd vatnsréttindi. Er það mat dómsins að með þeirri greiðslu sem matsnefnd ákvað til hvers og eins vatnsréttarhafa séu að fullu bætt þau réttindi sem stefnendur þessa máls létu af hendi til stefnda með samningi í árslok 2005.“

Í byrjun árs 2008 greiddi Landsvirkjun landeigendum um helming upphæðarinnar.

100 milljarða króna kröfur

Landeigendur kröfðust á sínum tíma tæplega 100 milljarða króna bóta fyrir vatnsréttindin. Landvirkjun lýsti kröfunni sem „stjarnfræðilega hárri“ og benti á að hún væri næstum jafn há og „framkvæmdakostnaður stærstu framkvæmdar Íslandssögunnar,“ sem er um 100 milljarðar króna.

Einn nefndarmanna skilaði sératkvæði árið 2007. Hann féllst á að breytingar hefðu orðið á íslenskum raforkumarkaði árið 2003 og landeigendur verðskulduðu hærri bætur fyrir vatnsréttindin, ekki lægri en 10 milljarða króna.

Íslenskur orkumarkaður er tvískiptur

Líkt og matsnefndin fyrir fjórum árum, komst dómurinn í dag að þeirri niðurstöðu að hérlendis ríki tvískiptur orkumarkaður, annars vegar til stóriðju, hins vegar til almennra notenda. Engu skipti þótt hann sé ekki aðgreindur þannig í lögum, slíkt ráðist af „raunverulegum markaðsaðstæðum.“

Dómurinn tekur ekki undir það mað landeigendum að verðmæti vatnsréttinda verði ákvarðarð með að uppreikna hlutföll af brúttósöluverði til eingreiðslu eins og aðalkarfa þeirra byggir á. Ekki hafi verið vísað til neinna fordæma sem sýni að aðferðinni hafi verið beitt í eignarnámsmálum hérlendis eða annars staðar.

Auk Halldórs Björnssonar, héraðsdómara, var dómurinn kveðinn upp af Ólafi Ísleifssyni, hagfræðingi og lektor og Óskari Sigurðssyni, hæstaréttarlögmanni og löggiltum fasteignasala.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar