Drög að vörnum fyrir atvinnusvæðið fyrir innan Neskaupstað
Sérfræðingar Veðurstofu Íslands hafa lagt fram fyrstu hugmyndir að því hvernig megi verja atvinnusvæði og mikilvæga innviði fyrir innan Neskaupstað fyrir ofanflóðum. Bæjarstjóri segir mikilvægt að fá yfirsýn yfir hættu á atvinnusvæðum.Veðurstofa Íslands hefur að ósk umhverfisráðherra unnið yfirlit yfir atvinnusvæði sem eru á mesta hættusvæðinu, hættusvæði C, gagnvart ofanflóðum og lagt fram fyrstu hugmyndir um varnir þar. Skýrsludrög voru kynnt austfirskum sveitarstjórnum en verða innan tíðar opinber í samráðsgátt stjórnvalda.
Á Austfjörðum er um að ræða svæði á Seyðisfirði og Norðfirði. Svæðið sem um ræðir á Norðfirði nær í grófum dráttum frá varnargörðunum sem hlífa innanverðum Neskaupstað inn að nýju netagerðinni. Helsta athafnasvæði Síldarvinnslunnar telst öruggt á hættusvæði A en þar með er ekki öll sagan sögð.
„Þarna eru líka mannvirki á hættusvæði B. Það nær yfir hluta atvinnusvæðisins. Þarna er líka ýmislegt sem skiptir máli fyrir atvinnulíf bæjarins. Ef eitthvað hendir spennistöðina þá verða erfiðleikar með rafmagn. Eins eru þarna olíutankar og það gæti orðið vont ef flóð færi á þá,“ segir Jóna Árný Þórðardóttir, bæjarstjóri Fjarðabyggðar.
Þegar ráðist var markvisst í að byggja upp snjóflóðavarnir hérlendis fyrir um 25 árum síðar, í kjölfar mannskæðra snjóflóða á Vestfjörðum, var byrjað á að verja íbúðahúsnæði. Sú vinna er enn í gangi og á að ljúka árið 2030. Eftir ný snjóflóð á Vestfjörðum í byrjun árs 2020 og aurskriðurnar á Seyðisfirði í lok þess árs hefur umræða skapast um stöðu atvinnuhúsnæðis á svæði C en það hefur til þessa fallið utan varna.
Jóna Árný fagnar því að ráðist hafi verið í úttektina. „Þetta er í fyrsta sinn sem farið er yfir C-svæði við þéttbýli. Eðlilega hefur verið horft á íbúabyggðina en við verðum líka að horfa til atvinnusvæðanna. Þau skipta máli fyrir þróun samfélaganna. Fyrsta skrefið er að ná utan um hvar þessi svæði eru og hvað er á þeim og svo skoða hvaða möguleikar séu til að minnka hættuna á þeim,“ segir hún.
Með íbúabyggðina gildir sú regla að annað hvort eigi að verja eignir eða sé það ekki tæknilega hægt eða fýsilegt skuli kaupa upp eignir. Jóna Árný segir fyrstu drög benda til þess að hægt sé að verja svæðin sem um ræðir á Norðfirði.
„Það eru hugmyndir að mögulegum vörnum fyrir þessi svæði. Við viljum að þær verði unnar áfram. Við erum aðallega að tala um varnargarðana sem eru ekki jafn umfangsmiklir og í kringum byggðina.“