Drunur eins og ruðningsbíll væri að ryðja auða götuna

Íbúi á Seyðisfirði segir mikla samkennd ríkja í bænum eftir að 120 manns þurftu að finna sér annað heimili í nótt eftir að hús við fjórar götur í bænum voru rýmdar í gær eftir að tvær aurskriðu féllu niður í bæinn. Seyðfirðingar séu annars að byrja að sjá verksummerkin nú í birtingu.

„Þetta er eins og eftir fellibylinn Katarínu. Húsin standa á kafi í vatni. Í kringum gamla pósthúsið og Skaftfell er komið ný á sem teygir sig niður eftir veginum sem liggur að ferjuhöfninni. Það liggur hálfur metri af drullu þarna yfir.“

Þetta segir Jonathan Moto Bisagni, íbúi á Seyðisfirði og framkvæmdastjóri Austurlands food coop. Fyrirtækið hefur aðsetur í gömlu bensínstöðinni, sem er beint fyrir neðan Skaftfell og er hún eitt þeirra húsa sem stendur í miðju drullufljótinu.

Skjót rýming

Þar standa yfir endurbætur og var Jonathan því ekki staddur í henni. Sjálfur hafði hann brugðið sér stuttlega heim til sín í Botnahlíð þegar skriðan féll þar og er því meðal þeirra sem þurft hafa að yfirgefa heimili sín.

„Ég skaust úr vinnunni til að eldri strákinn í skólann og konan mín var heima að svæfa þann yngri. Þegar við komum heim sagði hún okkar að hún hefði heyrt læti sem voru eins og snjóplógur væri að skrapa auða götuna. Við vissum ekkert hvað væri að gerast svo ég hringdi í félaga okkar úr björgunarsveitinni sem sagði mér frá skriðu.

Húsið snýr að Fjarðarheiðinni og þegar ég horfði út um gluggann sá ég skriðuna og drulluna frá henni sem þakti túnið fyrir neðan. Ég lét félaga okkar vita og hann sagði að það þyrfti að rýma húsið. Gatan okkar tæmdist á kortéri,“ segir Jonathan.

Allir tilbúnir að hjálpa

Austurlands food coop flytur inn grænmeti með Norrænu sem kom til Seyðisfjarðar í gærmorgun. Starfsmenn fyrirtækisins voru að flokka grænmetið og útbúa sendingar. „Við hættum strax að vinna og tæmdum vöruhúsið því við vildum að allir væru öruggir.“

Jonathan og fjölskylda voru því meðal þeirra sem gátu ekki verið heima hjá sér í nótt. „Sem betur fer var vinkona okkar í Reykjavík og hún á gott hús sem við gátum fengið að vera í. Annars eru allir bæjarbúar tilbúnir að hjálpa og það voru nokkrir sem höfðu samband til að ganga úr skugga um að við hefðum afdrep í nótt.“

Minnir á 11. september

Jonathan, sem bjó áður í New York, segir andrúmsloftið á Seyðisfirði að vissu leyti minna á þá stemmingu sem ríkti í borginni eftir árásirnar á Tvíburaturnana 11. september árið 2001.

„Ég bjó þá í klukkustundar fjarlægð norður af miðborginni en átti marga vini sem unnu þar. Mér líður svipað nú og þá. Þetta er eitthvert undarlegt áfall. Núna er að birta þannig við erum að sjá það sem gerst hefur. Við vitum ekki alveg hvað hefur gerst, bara að það var ekki gott. Þetta á það líka með sammerkt með 11. september að óöryggið liggur yfir og maður veit ekki enn hvað gerist næst.

Þetta er annars einkennandi fyrir árið 2020 og það hefur ákveðið að kveðja með stæl. Síðan í febrúar hefur stöðugt þurft að bregðast við einhverju. Ég vona bara að þetta sé búið núna,“ segir Jonathan.

Stærsti dagur ársins

Útlit er fyrir að einhverjar tafir verði á afhendingu grænmetiskassa frá Austurlands food coop vegna skriðufallanna. „Við erum að bíða eftir staðfestingu á hvort við getum ekki byrjað að vinna aftur í vöruhúsinu. Það á að vera á öruggu svæði. Ég reikna með að áskriftarkassarnir verði afhentir um klukkustund síðar en vanalega.

Síðan kemur í ljós hvað við komumst langt með pantanir úr vefversluninni. Það hefur aldrei selst meira á einum degi í henni, það lá við að hún þyldi ekki álgið svo þetta er algjört brjálæði.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.