Eftirlitsnefnd gerir enn athugasemdir við ársreikninga Múlaþings
Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga (EFS) gerir athugasemdir við ársreikning Múlaþings á síðasta ári enda standist reikningurinn ekki þau lágmarksviðmið sem nefndin gerir. Athugasemdir komu líka fram í fyrra.
Það þrennt sérstaklega sem nefndin finnur að. Í fyrsta lagi er hálfs milljarðs króna rekstrarhalli Múlaþings 2023 þar sem viðmiðið er að staðið skuli á sléttu. Í öðru lagi er framlegð í hlutfalli við rekstrartekjurnar afar lágt eða aðeins 5,5% meðan lágmarkviðmið EFS sé 9,8%. Að síðustu sé skuldahlutfall A-hluta sveitarfélagsins of hátt en hlutfallið er 128% meðan viðmið EFS sé undir 100%. Til A-hlutans telst öll starfsemi sveitarfélagsins sem að hluta eða öllu leyti er fjármögnuð með skatttekjum.
Leggur nefndin í bréfi sínu áherslu á að Múlaþing leiti allra leiða sem fyrst til að uppfylla umrædd lágmarksviðmið.
Í anda þess sem unnið er að
Fram kom í máli Björns Ingimarssonar, sveitarstjóra, við umræður um bréfið á síðasta sveitarstjórnarfundi, að sjálfur liti hann á viðvörunina sem hvataábendingu enda niðurstaða A-hlutans lengi verið í lakari kantinum.
„Það er alveg ljóst að sveitarfélagið er að vinna samkvæmt fjárhagslegum viðmiðum sveitarfélagslaganna og við erum alveg að standast þau viðmið. Þau snúa að hlutföllum í ákveðnum stærðum í niðurstöðu samstæðureiknings sveitarfélagsins og þau erum við að standast. Nefndin hefur sett sér ákveðin önnur viðmið þar sem eru eingöngu er verið að horfa til A-hluta og ég get alveg verið sammála því að það er mikilvægt að, eins og kemur fram í þeim viðmiðum sem þeir eru að horfa til, að sveitarfélög setji sér markmið og stefni að því að ná þeim. Þetta er alveg í anda þess sem við erum að vinna. Ef við horfum til þess sem mun koma skýrar í ljós þegar við tökum endanlega afgreiðslu okkar fjárhagsáætlunar fyrir næsta ár og langtímaáætlunina þá sjáum við þessa þróun.“