Eftirvagn losnaði aftan úr olíuflutningabíl á Fagradal

Betur fór en á horfðist þegar tengivagn losnaði aftan úr olíuflutningabíl á Fagradal á þriðja tímanum í dag. Umferðartafir eru á svæðinu þar sem önnur akreinin er lokuð vegna óhappsins.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu er verið að tæma eftirvagninn. Olíubíllinn stendur úti í kanti en önnur akreinin er lokuð.

Lögregla er á svæðinu við Neðri-Launá og stýrir umferð þar um. Búast má við töfum eitthvað fram eftir vegna þessa.

Enginn leki er frá bílnum og engin slys urðu á fólki í óhappinu.

Uppfært 18:00: Aðgerðum er lokið á staðnum og bíllinn fjarlægður. Umferð um Fagradal gengur því sinn vanagang.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar