„Ég er ekki með neinar töfralausnir en ofsalega góð verkfæri“
Ásthildur Kristín Garðarsdóttir, sem stendur fyrir sjálfsræktarnámskeiðinu Jákvæð sálfræði og núvitund á Egilsstöðum um miðjan mánuðinn.
Ásthildur Kristín er kennari að mennt og einnig með master í jákvæðri sálfræði frá háskólanum í Árósum. Hún er nú að fara af stað með tíu klukkustunda námskeið sem kennt verður á fimm dögum.
„Ég legg rosalega mikla áherslu á samskipti og þar reynir langmest á samskiptin við okkur sjálf, en það er glíman sem við erum í alla daga. Ef maður nær að hafa þau í lagi þá gengur allt svo miklu betur. Þetta snýst um að læra að láta hugann ekki ráða för, en hann er alltaf á urrandi siglingu út og suður og við verðum að læra að taka ekki alltaf mark á honum heldur taka stjórnina sjálf,“ segir Ásthildur Krisín.
Unnið verður út frá PERMA kenningunni sem tekin er úr jákvæðri sálfræði með áherslu á VIA styrkleika (Virtues In Action);
„PERMA kenningin inniheldur fimm element sem leitast er við að rækta; jákvæðar tilfinningar (P), virkni (E), jákvæð tengsl (R), tilgang (M) og jákvæða frammistöðu (A). VIA styrkleikarnir samanstanda af 24 eiginleikum, þ.e. mannkostum og dyggðum, sem veita okkur möguleika á að nýta hæfileika okkar og getu til fulls þegar við lærum að þekkja þá.
Núvitund verður nýtt til að hjálpa þátttakendum að átta sig á hvernig hugurinn virkar, hvernig við getum lært að stýra betur hvaða áhrif hugsanir okkar hafa á okkur, hvernig hægt er að brjóta upp neikvætt vanamynstur og temja sér að vera til staðar hér og nú og njóta lífsins betur,“ segir Ásthildur Kristín.
„Við þurfum að rækta jákvæðnina innra með okkur“
Ásthildur Kristín segir að inntak jákvæðu sálfræðinnar sé að beina athyglinni að því sem vel gengur í lífinu. „Við erum svo fljót að detta ofan í neikvæðnina, það er okkur miklu tamara. Við því þurfum við að kunna að bregðast því að neikvæðar tilfinningar virka þrisvar sinnum sterkar á okkur en jákvæðar. Segja má að ég sé að kenna fólki glímuna við neikvæðnina, aðferðir við að breyta hugarfarinu því við þurfum að rækta jákvæðnina innra með okkur. Ég er ekki með neinar töfralausnir en ofsalega góð verkfæri. Við tökum þetta í smá skrefum og líkja má ferlinu við þegar barn byrjar að lesa, það byrjar á því að stauta og verður svo hraðlæst.“
„Núvitundin er að koma sterk inn“
Ásthildur Kristín segist skynja vitundarvakningu varðandi sjálfsræk meðal landans. „Mér finnst eins og það sé eitthvað að gerast núna, að fólk sé að átta sig á því að það verði að hætta þessu kapphlaupi, hætta að reyna að slá í gegn. Núvitundin er að koma sterk inn og við erum að átta okkur á því hvað það er sem raunverulega skiptir máli, en það er að hægja aðeins á og njóta lífsins.“