„Ég hefði ekki náð til þeirra nema með hjálp heimamanna“

„Við þurfum öll að hjálpast að og láta vita ef við sjáum eitthvað misjafnt,“ segir landvörðurinn Lára Björnsdóttir um síendurtekinn stuld á silfurbergi úr Helgustaðanámu við Eskifjörð.


Helgustaðanáma var friðlýst sem náttúruvætti árið 1975 sem merkir að ekki er heimilt að fjarlægja berg af staðnum. Lára segir að töluvert sjái orðið á Helgustaðanámu.

„Miðað við eldri myndir sem ég hef séð af svæðinu þá er verulegur munur, því miður,“ segir Lára sem stöðvaði ferðafólk með fulla vasa af grjóti á dögunum.

„Ég hefði ekki náð til þeirra nema með hjálp heimamanna sem bæði tjáðu viðkomandi að um lögbrot væri að ræða og létu mig vita. Þannig get ég gert mitt besta til þess að stoppa brotthvarf steina úr námunni og tilkynnt brotið og þannig fáum við kannski enn frekar aðstoð og fjármagn til þess að verja þessar einstöku minjar okkar allra. Við þurfum að gefa skýr skilaboð til ferðamanna og allra, en þetta eru ekki eingöngu erlendir ferðamenn sem eru að verki eins og flestir halda.“

Vill sjá landvörslu allt árið
Lára er starfsmaður Umhverisstofnunar en aðeins hefur fengist fjármagn fyrir tímabundinni ráðningu landvarðar á Austurlandi. „Ég er bara ráðin frá 20. júní til 15. Sepember. Það gæti orðið framhald á, en Umhverfisstofnun bíður eftir fjármagni frá Umhverfisráðuneytinu.

Svæðið mitt er mjög stórt, liggur frá Óslandi í Hornafirði og alveg að Borgarfirði eystri, að Teigarhorni undanskildu þar sem landvörður er starfandi. Þó svo ég sé með áherslu á Helgustaðanámu, Hólmanesið og Fólkvanginn í Neskaupstað þá hef ég einnig verið að sjá um tvo sjálfboðaliðahópa sem eru í ýmsum verkefnum. Ég get því ekki verið eins mikið í Helgustaðanámu og ég vildi. Það er mín skoðun að ráða þyrfti landvörð til þess að vera í námunni eingöngu yfir háannatímann auk þess sem við þyrftum landvörð í fjórðunginn allan ársins hring. Þetta er bara eitthvað sem við verðum öll að taka höndum saman og þrýsta á.“

Síminn hjá Láru er 822-4005 og netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.




Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.