„Ég spái því að Borgarfjörður eystri verði Balí norðursins“

„Ég þreytist ekki á að breiða boðskapinn um mikilvægi öndunar, slökunar og sjálfsumhyggju,“ segir Sigrún Halla Unnarsdóttir en hún stendur fyrir jógahelgi á Borgarfirði eystra ásamt Auði Völu Gunnarsdóttur um miðjan september.


„Ég hef ekki enn hitt þann einstakling sem ekki þarf á því að halda að minnka streituna í lífi sínu. Við Íslendingar erum sérstaklega slæm, að harka er svo mikil dyggð í okkar samfélagi,“ segir Sigrún Halla sem sjálf lauk kennararéttindum í Kundalini jóga vorið 2016 og hefur síðan þá kennt fjölmörg námskeið, haldið utanum jógatengda viðburði og skipulagt jógaferðir erlendis.

Auður Vala hefur helgað sig heilbrigðum lífstíl og að miðla honum í fjölmörg ár. Hún er yfirþjálfari fimleikadeildar Hattar auk þess að kenna líkamsrækt. Auður rekur einnig gistiheimilið Blábjörg á Borgarfirði.

„Í dag eiga þessi eldgömlu fræði svo vel við“
Sigrún Halla segir alla geta mætt á jógahelgina sem haldin á Blábjörgum á Borgarfirði helgina 14.-16. september.

„Tímarnir eru hugsaður þannig að hægt er að aðlaga æfingarnar að getu hvers og eins. Ávinningur þess að stunda jóga er margvíslegur því þetta er svo heildstætt kerfi sem unnið er eftir. Þetta eru vísindi sem kenna okkur á líkaman okkar, hjálpar okkur að kyrra hugann, hlusta á sálina og svo mætti lengi telja. Í dag eiga þessi eldgömlu fræði svo vel við, því við lifum við svo ótrúlegan hraða í samfélaginu að það er ekki nokkur leið að standast álagið án þess að styrkja taugakerfið og vera í góðu líkamlegu og andlegu jafnvægi.“

„Jóga er svo miklu meira en bara líkamsrækt“
Sigrún Halla segir Borgarfjörð kjörinn stað fyrir helgi sem þessa. „Borgarfjörður eystri er algjör perla, en það vita auðvitað allir sem þangað hafa komið. Náttúrufegurðin er engu lík og andrúmsloftið alveg stútfullt af kyrrð og ró. Að stunda jóga á Borgafirði Eystra er því nánast eins og að fullkomna fallegt málverk, setja punktinn yfir I-ið.

Jóga er svo miklu meira en bara líkamsrækt, það er heill hafsjór af heimspeki sem liggur þar að baki. Til dæmis leggja jógarnir mikla áherslu á náttúruna, en við eigum það til að gleyma því hvaðan við komum og hvert við förum. Svo bara það eitt að komast út undir bert loft minnir okkur á að hægja á og njóta augnabliksins. Ég spái því að Borgarfjörður eystri verði Balí norðursins. Einstakur staður að koma á til þess að hlaða líkama og sál.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar