Eggin verði áfram í Gleðivík

Útlit er fyrir að listaverkið „Eggin í Gleðivík“ verði áfram á sínum stað. Til stóð að færa þau eftir banaslys sem varð í nágrenni þeirra síðasta sumar.

Samkvæmt bókun heimastjórnar Djúpavogs frá í desember er lagt til að listaverkið standi áfram í Gleðivík „sé þess nokkur kostur.“

Eggin, sem listamaðurinn Sigurður Guðmundsson gerði, hafa um árabil verið einn helsti áningarstaður ferðamanna sem koma til Djúpavogs. Undanfarin ár hefur hins vegar byggst upp athafnasvæði í kringum laxeldi í Gleðivík og hefur það sambýli stundum verið erfitt.

Í júní í fyrra lést erlendur ferðamaður þar eftir að hafa orðið fyrir vinnuvél. Í kjölfarið var gefin út yfirlýsing um að listaverkið yrði fært. Ljóst var þó að vandasamt yrði að finna því nýjan stað þar sem það er hannað inn í Gleðivík.

Nú stendur yfir vinna við skipulag í tengslum við hin sívaxandi umsvif í Gleðivík. Í bókun heimastjórnar segir að við þá vinnu og framkvæmdir verði að gæta að merkingum, umferðaröryggi og aðgengi. Strax fyrir næsta sumar verði að tryggja öryggi gangandi vegfarenda eins og kostur er.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar