Egilsstaðir eignast sitt fyrsta samvinnuhús

Lengi vel hefur þess verið beðið af mörgum einyrkjum að eiga athvarf á einum og sama staðnum þar sem gott aðgengi er að öllu sem til þarf auk félagsskapar ef svo ber undir. Þeirri bið lýkur í næstu viku þegar samvinnuhúsið Setrið opnar á Egilsstöðum.

Setrið er afsprengi mikillar vinnu Maríu Kristmundsdóttur, þekkingarstjóra, en hún hefur að mestu leyti sjálf haft veg og vanda af því að slíkt samvinnuhús er orðið að raunveruleika en það mun opna formlega á föstudag í næstu viku. Frá og með þeim degi geta allir áhugasamir tryggt sér aðstöðu þar innandyra hvort sem í nokkrar klukkustundir eða til lengri tíma.

María segir lengi hafa verið þörf á slíkri aðstöðu á Egilsstöðum en aðgangur er þó fjarri því einskorðaður við fólk þar heldur allir velkomir sem áhuga hafa á góðri, hlýlegri aðstöðu miðsvæðis í bænum á Fagradalsbraut 11.

Í starfi mínu sem þekkingarstjóri í alþjóðlegu fyrirtæki hef ég orðið vitni að því hversu mikil verðmæti geta skapast í þekkingarsamfélögum þar sem fólk tekst saman á við faglegar áskoranir. Til að skapa slík samfélög þarf af ásetningi að skapa traust til samtals þar sem fólk deilir áhyggjuefnum og fær leiðsögn og ráðgjöf frá félögum sínum. Við búum í samfélagi þar sem einangrun eykst með hverjum deginum og fólk lokast sífellt meira inn í bergmálshelli samfélagsmiðlanna. Því er orðið mjög brýnt að við spyrnum við fótum og sköpum aukin tækifæri fyrir fólk til að tala saman í eigin persónu, skiptast á skoðunum, sækja stuðning, ráð og leiðsögn til annarra.

Það einmitt meginhugmyndin með setrinu að þar komi saman mismunandi fólk með mismunandi verkefni sem samt hafi tækifæri til að vinna saman ef svo ber undir.

„Mín viðspyrna var að koma á fót samfélagi á Egilsstöðum þar sem fólk með fjölbreyttan bakgrunn og fagsvið hefur tækifæri til að vinna saman á einum stað. Stað þar við víkkum sjóndeildarhringinn með fyrirlestrum, skipulögðum umræðum, tillögum að lesefni og hlaðvörpum eitthvað sé nefnt. Markmiðið er að veita stafrænum flökkurum, einyrkjum og öðrum sem stunda fjarvinnu frá Egilsstöðum hvetjandi og eflandi samastað.

Alls eru átta skrifborð í setrinu auk fundaaðstöðu og kaffistofu og nú þegar hafa fimm aðilar skráð sig fyrir aðstöðu innandyra. Allir geta sótt um og fengið ef laust er á annað borð en sótt er um aðgang á vefnum www.setridvinnustofa.com.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar