Eiðar til sölu

Jörðin Eiðar á Fljótsdalshéraði, ásamt þeim fasteignum sem henni fylgja, hefur verið auglýst til sölu. Landsbankinn tók við eigninni af Sigurjóni Sighvatssyni í lok síðasta árs.

Samkvæmt auglýsingu fasteignasölunnar Inni á Egilsstöðum er jörðin 768 hektarar að stærð og byggingar á henni 4707 fermetrar.

Fyrsta húsið sem nefnt er í upptalningunni er húsið sem áður var aðalbygging Alþýðuskólans á Eiðum. Í henni er bæði íþróttahús og sundlaug auk 20 svefnherbergja, kennslustofu og samkomusals.

Næsta hús hýsti áður heimavist skólans. Það er á þremur hæðum með rúmgóðu eldhúsi og matsal. Í enn öðru húsi hefur síðustu ár verið rekið gistiheimili með 20 herbergjum. Það er einnig til sölu. Í báðum þessum húsum eru íbúðir í viðbyggingum.

Fjórða húsið er tveggja hæða með alls þremur íbúðum. Þá tilheyra tvö einbýlishús jörðinni. Endurbætur hafa staðið yfir á öðru húsinu en þær eru skammt á veg komnar. Hitt húsið er sagt í afar slæmu ástandi eftir vatnstjón. Í auglýsingunni er tekið fram að ástand fasteignanna sé afar mismunandi og því skorað á áhugasama að skoða eignirnar vel með það í huga.

Í sölubæklingi á ensku frá árinu 2017, sem finna má í auglýsingu Fasteignamiðstöðvarinnar, er Eiðum lýst sem „paradís í paradís.“ Lögð er áhersla á góðar tengingar, svo sem í gegnum alþjóðaflugvöllinn á Egilsstöðum við heimsborgir á borð við New York, Nuuk, London, París, Róm, Moskvu, Ottawa og Marrakesh en einnig staði í nágrenninu eins og Seyðisfjörð, Borgarfjörð, Skriðuklaustur og Vallanes.

Þar er Eiðum lýst sem 790 hekturum af óspilltri náttúru þar sem finna megin einn stærsta skóg landsins í einkaeign. Þá er vakin athygli á að helstu byggingar séu teiknaðar af þekktustu arkitektum Íslandssögunnar: Guðjóni Sigvaldasyni, Rögnvaldi Ólafssyni og Sigvalda Thordarsyni.

Ekkert verð er sett á eignirnar heldur eingöngu óskað eftir tilboðum. Fasteignamat er 287 milljónir en brunabótamat 1,18 milljarðar króna.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar