Eiðar til sölu
Jörðin Eiðar á Fljótsdalshéraði, ásamt þeim fasteignum sem henni fylgja, hefur verið auglýst til sölu. Landsbankinn tók við eigninni af Sigurjóni Sighvatssyni í lok síðasta árs.Samkvæmt auglýsingu fasteignasölunnar Inni á Egilsstöðum er jörðin 768 hektarar að stærð og byggingar á henni 4707 fermetrar.
Fyrsta húsið sem nefnt er í upptalningunni er húsið sem áður var aðalbygging Alþýðuskólans á Eiðum. Í henni er bæði íþróttahús og sundlaug auk 20 svefnherbergja, kennslustofu og samkomusals.
Næsta hús hýsti áður heimavist skólans. Það er á þremur hæðum með rúmgóðu eldhúsi og matsal. Í enn öðru húsi hefur síðustu ár verið rekið gistiheimili með 20 herbergjum. Það er einnig til sölu. Í báðum þessum húsum eru íbúðir í viðbyggingum.
Fjórða húsið er tveggja hæða með alls þremur íbúðum. Þá tilheyra tvö einbýlishús jörðinni. Endurbætur hafa staðið yfir á öðru húsinu en þær eru skammt á veg komnar. Hitt húsið er sagt í afar slæmu ástandi eftir vatnstjón. Í auglýsingunni er tekið fram að ástand fasteignanna sé afar mismunandi og því skorað á áhugasama að skoða eignirnar vel með það í huga.
Í sölubæklingi á ensku frá árinu 2017, sem finna má í auglýsingu Fasteignamiðstöðvarinnar, er Eiðum lýst sem „paradís í paradís.“ Lögð er áhersla á góðar tengingar, svo sem í gegnum alþjóðaflugvöllinn á Egilsstöðum við heimsborgir á borð við New York, Nuuk, London, París, Róm, Moskvu, Ottawa og Marrakesh en einnig staði í nágrenninu eins og Seyðisfjörð, Borgarfjörð, Skriðuklaustur og Vallanes.
Þar er Eiðum lýst sem 790 hekturum af óspilltri náttúru þar sem finna megin einn stærsta skóg landsins í einkaeign. Þá er vakin athygli á að helstu byggingar séu teiknaðar af þekktustu arkitektum Íslandssögunnar: Guðjóni Sigvaldasyni, Rögnvaldi Ólafssyni og Sigvalda Thordarsyni.
Ekkert verð er sett á eignirnar heldur eingöngu óskað eftir tilboðum. Fasteignamat er 287 milljónir en brunabótamat 1,18 milljarðar króna.