Eiðavinir sammála að hleypa nýju lífi í félagið

Fyrsti aðalfundur samtakanna Eiðavina um fimm ára skeið fór fram um liðna helgi að Eiðum og þar var Gréta Sigurjónsdóttir kosinn nýr formaður. Mikill vilji er til að blása góðu lífi í samtökin á ný.

Sökum meðal annars Covid-faraldursins og óvissu um framtíð Eiða á tímabili hefur enginn aðalfundur samtakanna verið haldinn síðan árið 2019 en síðan þá hafa orðið töluverðar breytingar á stöðu mála á Eiðajörð. Nýir, framsýnir eigendur tekið við og tóku þeir vel á móti hópnum um helgina með erindi um uppbyggingu staðarins og gott betur en það því enginn annar en Jónas Sig spilaði og söng fyrir hópinn að fundi loknum.

Að sögn fráfarandi formanns, Örvars Ármannssonar, náðist ekki að leggja fram endurskoðaða reikninga samtakanna en stefnt að því á nýjum aðalfundi strax í byrjun næsta árs. Að öðru leyti var fundurinn prýðisgóður.

Í heildina litið var fundurinn jákvæður og uppbyggilegur og allir sammála um að hleypa nýju lífi í félagið og stefna á aukna samvinnu við núverandi eigendur Eiða. Fráfarandi stjórn lýsti mikilli ánægju með samstarfið við eigendur og fagnaði þeirri uppbyggingu sem er þegar er orðin og sér fram á aukið líf á staðnum og aukin tækifæri fyrir Eiðavini nær og fjær að nýta sér aðstöðuna.

Meðal þess sem fundurinn samþykkti var að ný stjórn skyldi endurskoða lög samtakanna með tilliti til breyttra tíma á staðnum og mikinn vilja landeigenda að eiga gott og náið samstarf við Eiðavini í framtíðinni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.