Einar Rafn: Athyglisvert að fá ákúrur fyrir að endurtaka niðurstöður Ríkisendurskoðunar

einar_rafn_siv_fridleifs.jpg
Einar Rafn Haraldsson ætlar ekki að áfrýja niðurstöðu Héraðsdóms Austurlands sem í síðustu viku dæmdi hann fyrir meiðyrði í garð Hannesar Sigmarssonar, fyrrverandi yfirlæknis í Fjarðabyggð. Framhald málsins að öðru leyti er í höndum ríkislögmanns fyrir hönd Heilbrigðisstofnunar Austurlands.

„Ég mun una því að greiða 300.000 krónur í skaðabætur enda voru þau ummæli hvorki dæmd ómerk né mér gert að birta afsökunarbeiðni, eins og gert er þegar ranglega er farið með en dóminum þykir ég hafa farið út fyrir þann ramma tjáningarfrelsis sem mér er settur,“ sagði Einar Rafn í samtali við Austurfrétt.

Hannes fór fram á fimm milljóna miskabætur þar sem ummæli Einars Rafns, sem taldi gögn málsins sýna að læknirinn hefði ofreiknað sér laun frá HSA, hefðu rýrt atvinnumöguleika hans. Meðal þeirra gagna sem Einar vísaði til var greinargerð Ríkisendurskoðunar um starfshætti Hannesar. „Athyglisvert er að fá ákúrur fyrir eð endurtaka niðurstöður Ríkisendurskoðunar.“

Fagna að niðurstaða sé komin

Héraðsdómur vísaði frá dómi aðalkröfu Hannesar um bætur fyrir ólögmæta uppsögn. „Ég fagna því að komin er niðurstaða í kærumál með því að upphaflegri kröfu hans um 27 milljóna króna skaðabætur ólöglegrar uppsagnar er vísað frá. Það segir sitt um rökin sem kæran var byggð á.“

HSA brást á sínum tíma við með að gagnstefna Hannesi fyrir ofreiknuð laun. Dómurinn gerði Hannesi að endurgreiða 1,3 milljónir sem hann viðurkenndi við yfirheyrslur hjá lögreglu að hafa ofreiknað sér með mistökum við innslátt í töflureikni. 

Þó er óvíst að málinu sé lokið. Málinu var vísað frá á tækniatriði í kæru Hannesar. Lögfræðingar hans hafa nú tækifæri til að laga það og stefna málinu aftur fyrir dóm.

Framhaldið ríkislögmanns

HSA fór hins vegar fram á um þrjár milljónir króna í skaðabætur og lagði til grundvallar eigin rannsókn sem dómurinn hafnaði sem „einhliða.“

„Mér finnst miður að skoðun starfsmanna HSA á reikningum hans, sem var yfirfarin af Ríkisendurskoðun, hafi verið talin ófullnægjandi. Það er svo í hendi ríkislögmanns að ákveða hvort kærunni á hendur Hannesi verður haldið til streitu.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.