Einar Rafn dæmdur fyrir meiðyrði í garð Hannesar: Gekk of langt

einar_rafn_siv_fridleifs.jpgHeilbrigðisstofnun Austurlands, fyrir hönd framkvæmdastjórans Einars Rafns Haraldssonar, var í Héraðsdómi Austurlands í vikunni dæmd til að greiða Hannes Sigmarssyni, fyrrverandi yfirlækni heilsugæslunnar í Fjarðabyggð, 300.000 krónur í miskabætur fyrir meiðyrði. Einar Rafn var dæmdur fyrir ummæli í fréttum Ríkisútvarpsins og í tölvupósti til eins af stuðningsmönnum Hannesar.

 

„Ef stolið er frá þér, þú stendur þjófinn að verki og kærir hann til lögreglu, átt þú þá að skammast þín og hverfa af vettvangi? Jafn veraldarvanur maður og þú veist að þegar opinber starfsmaður í yfirmannsstöðu eins og Hannes fremur auðgunarbrot þá er hann leystur frá störfum meðan lögregla rannsakar málsatvik og birt tilkynning þar um. 

Það leikur enginn vafi á því að Hannes hefur brotið af sér og ég hef ekkert umboð til að hylma yfir það. Að lokinni rannsókn tekur saksóknari ákvörðun um framhaldið. Sé Hannes saklaus fær hann uppreisn æru,“ skrifaði Einar Rafn í svarpósti til eins af stuðningsmönnum Hannesar um mánuði eftir að læknirinn var sendur í frí og kærður til lögreglu vegna gruns um fjárdrátt. Stuðningsmaðurinn krafði Einar Rafn um afsögn í sínum tölvupósti.

Einar Rafn var sakfelldur fyrir meiðyrði í tölvupóstinum. Í dómsniðurstöðu segir að „í ljósi þess hve dreifing tölvubréfa er auðveld, búast við því að ummælum hans í því bréfi kynni að verða dreift víðar en til viðtakanda þess.“

Málið hafði áhrif á einkalíf og fjölskyldu

Einar Rafn var einnig dæmdur fyrir ummæli sín um Hannes í fréttum Ríkisútvarpsins á um eins og hálfs árs tímabili eftir að málið kom upp. Hann sagði meðal annars að Hannes hefði misnotað aðstöðu sína til að skrifa ranga reikninga, framkoma hans við samstarfsmenn og yfirmenn hefði verið óásættanleg og læknisfræðilegum vinnubrögðum mjög ábótavant. 

Hannes stefndi Einari fyrir ærumeiðingar og krafðist fimm milljóna króna í miskabætur. Með ásökunum um fjárdrátt hefðu atvinnumöguleikar hans verið takmarkaðir. Málið allt hefði haft veruleg áhrif á einkalíf hans og fjölskyldu hans.

Taldi gögn sanna sekt Hannesar

Fyrir dómi bar Einar Rafn því við að hann hefði talið gögn málsins, svo sem greinargerðir Ríkisendurskoðunar og landlæknisembættisins, sanna sekt Hannesar. Stjórnendur HSA sögðu einnig að þeir hefðu átt erfitt með að verja sig og sökuðu Hannes um að hafa átt hlut í mótmælum við höfuðstöðvar HSA á Egilsstöðum haustið 2009.

Viðtölin við Einar voru meðal annars tekin eftir að lögreglan hafði fellt málið niður. Í ljósi þess að lögreglan fylgdi ekki eftir athugasemdum stofnananna taldi dómurinn að ummæli Einars Rafns væru ekki fyllilega réttmæt.

Tjáði sig með óviðeigandi og óréttmætum hætti

Dómurinn bendir á að þótt stjórnendur HSA hefðu sterkan grun um að Hannes hefði brotið af sér í starfi hafi þeim borið skylda til að gæta hófs í upplýsingagjöf um málið þótt það hefði skírskotun til almannahagsmuna þar sem höndlað var með almannafé og það vakið „töluverða úlfúð í samfélaginu, sérstaklega á Austurlandi og þar með áhuga og umfjöllun fjölmiðla.“

Dómurinn tekur undir þær röksemdir Hannesar að sem forstjóri ríkisstofnunar hafi Einar Rafn „tjáð sig með bæði óviðeigandi og óréttmætum hætti um málefni stefnanda á tíma þegar niðurstaða rannsóknar lögreglu lá ekki fyrir.“ Staða hans hafi „aukið trúverðugleika ummæla hans í augum almennings.“

Gekk of langt

Þá telur dómurinn að Einar Rafn hafi gengið of langt með ummælum sínum um að læknisfræðilegum vinnubrögðum Hannesar væri mjög ábótavant. Þótt í álitsgerð landlæknis hafi Hannes verið átalinn fyrir skráningar í sjúkraskrár hafi sérfræðingur í heimilislæknum í seinni greinargerð embættisins ekki talið vinnubrögð Hannesar „ámælisverð þótt sitthvað teldist umdeilanlegt.“

Hannes hefur borið því að vegna anna í starfi og persónulegra aðstæðna hafi færslur í sjúkraskrár setið á hakanum.

Dómurinn taldi hins vegar ekki sýnt fram á að ummæli Einars Rafns um óásættanlega framkomu Hannesar í garð samstarfsfólks og yfirmanna væru óréttmæt. Þau voru látin falla eftir skýrslu tveggja sálfræðinga um starfsandann innan heilsugæslunnar í Fjarðabyggð.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.