Einar Rafn: Við gleðjumst yfir sprengingunum á kvöldin

hjukrunarheimili_egs_skoflustunga_0013_web.jpg
Einar Rafn Haraldsson, framkvæmdastjóri Heilbrigðisstofnunar Austurlands, segir það afar ánægjulegt að vinna sé hafin við nýtt hjúkrunarheimili á Egilsstöðum með 40 rúmum. Erfitt hafi verið að sinna sjúklingum við núverandi aðstæður.

„Við erum afar ánægð með allan skarkalann sem er fyrir utan gluggana núna og gleðjumst yfir sprengingunum á kvöldin,“ sagði Einar Rafn á opnum kynningarfundi um byggingu hjúkrunarheimilisins á föstudag.

Hann segir að valin hafi verið hagkvæmasti kosturinn við bygginguna. Hjúkrunarheimilið er staðsett við heilsugæslustöðina á Egilsstöðum og með því næst samrekstur á ákveðnum sviðum. 

Annað þjóðfélag í dag

Nýja húsið tekur við af húsnæði sem komið er til ára sinna. Hönnun núverandi hjúkrunarheimilis sé orðin um 40 ára gömul. Það hafi verið smíðað sem íbúðir fyrir aldraða en síðar breytt í þjónustustofnun. „Við lifum í öðru þjóðfélagi í dag.“

Upphaflega hafi verið 20 rúma hjúkrunarheimili sem hafi minnkað niður í 17. Sjúkrarúmin hafi verið tíu, síðan fækkað í átta og loks þrjú. Undir lokin hafi verið útlit fyrir að öllum sjúkrarúmunum yrði lokað. „Þá hefði ekkert sjúkrarúm verið í fjórðungnum utan Norðfjarðar og það er ekki viðunandi ástand.“

Verkið boðið út í þrennu lagi

Fyrsta skóflustungan að hjúkrunarheimilinu var tekin í lok janúar. Bjóða á bygginguna sjálfa út í lok mars og vonir standa til að byrjað verði á henni í maí. Hún á að vera tilbúin fyrir árslok 2014 þannig að starfsemi geti hafist í byrjun árs 2015.

Upphaflega áttu 30 rúm að vera á hjúkrunarheimilinu en þau hefðu verið full um leið og húsið verður tilbúið. Þeim var því fjölgað í fjörutíu. Þá var hönnun þakplötu hússins breytt þannig að hægt verði að byggja þriðju hæðina ofan á það.

Áætlað er að verkið kosti 1-1,2 milljarð króna. Þessa dagana er unnið að fjármögnun þess annað hvort með útboði eða í gegnum Íbúðalánasjóð. Ríkið greiðir 85% af byggingarkostnaðinum með langtímaleigusamningi.

Verkið er boðið upp í þrennu lagi: grunnurinn, byggingin sjálf og loks frágangur á lóð. Á fundinum kom fram sterkur vilji forsvarsmanna sveitarfélagsins til að halda verkinu í heimabyggð. „Ég myndi helst vilja sjá hvera einustu verkstund verða eftir hér heima,“ sagði Gunnar Þór Sigbjörnsson, formaður atvinnumálanefndar Fljótsdalshéraðs.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.