Einn Austfirðingur í stjórn Landsbyggðarflokksins

landsbyggdarflokkurinn.jpg
Árni Björnsson, kerfisfræðingur frá Egilsstöðum, er fulltrúi Norðausturkjördæmis í stjórn Landsbyggðarflokksins sem stofnaður var í gær. Stofnfundurinn var haldinn í gegnum netið í landsbyggðarkjördæmunum þremur.

Kosin var bráðabirgðastjórn fram að framhaldsstofnfundi sem haldinn verður innan tveggja vikna. Hlutverk bráðabirgðastjórnar verður að vinna frekar að samþykktum og stjórnmálayfirlýsingum flokksins og framboði hans til alþingiskosninga á komandi vori, að því er segir í fréttatilkynningu.

Þau sem kosin voru í bráðabirgðastjórn eru: Magnús Hávarðarson Ísafirði, Gunnar Smári Helgason Siglufirði, Haukur Már Sigurðarson Patreksfirði, Árni Björnsson Egilsstöðum og Ylfa Mist Helgadóttir Bolungarvík.
 
Á fundinum var samþykkt áskorun til stjórnvalda um að setja strax lög um flýtiframkvæmdir á þeim vegum sem hafa orðið útundan í samgönguframkvæmdum undanfarinna áratuga og eru svo illa úr garði gerðir að þeir þola ekki eðlilega vöruflutninga.

„Það felst mikil skerðing á lífsgæðum íbúanna að búa við slíkt ástand og mikil samkeppnishindrun fyrir fyrirtæki sem háð eru flutningi um slíka vegi.

Nú þegar stofnfundur Landsbyggðarflokksins stendur yfir er heill landsfjórðungur, Vestfirðir, lokaðir eðlilegum vöruflutningum. Einnig eru víðtækar þungatakmarkanir á Snæfellsnesi, hluta af Norðurlandi og á Austurlandi. Engar þungatakmarkanir eru í grennd við Reykjavík.“

Stefnt er að því að flokkurinn bjóði fram lista í landsbyggðarkjördæmunum þremur í þingkosningunum í lok apríl.

„Svo virðist sem gömlu og nýju flokkarnir ætli málefnum landsbyggðarinnar ekki mikið pláss í stefnuskrám sínum fyrir næstu kosningar - ef þá nokkuð. Kannski ekki að furða hjá flokkum sem oftast eiga uppruna sinn og lögheimili á höfuðborgarsvæðinu. 

Markmiðið er að Landsbyggðarflokkurinn verði einskonar byggðabandalag, grasrótarhreyfing og hagsmunasamtök almennings á landsbyggðinni sem vill skapa sér betri lífsskilyrði og njóta jafnræðis á við aðra landsmenn. 
 
Í Landsbyggðarflokknum á heima fólk sem hefur ekki þolinmæði til að bíða lengur eftir því að stjórnmálaflokkarnir móti sér alvörustefnu í byggðamálum. Fólk sem nú vill taka málin í eigin hendur og hætta að treysta á staðnaða pólitíkusa sem eyða dýmætum tíma í óþarfa málþóf og leikaraskap á Alþingi.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar