Einn hlýjasti apríl sem mælst hefur

Nýliðinn aprílmánuður var einn sá hlýjasti sem mælst hefur á Íslandi, sem og Austurlandi, samkvæmt samantekt Veðurstofunnar. 

Mánuðurinn var sá hlýjasti í sögunni á sex mælistöðvum: í Reykjavík, Stykkishólmi, Bolungarvík, Grímsey, á Akureyri og á Hveravöllum og sá næsthlýjasti í sögunni, apríl 1974 var heitari.

Á Egilsstöðum var meðalhitinn 5,5°C og sá næst hæsti í 65 ára mælingasögu. Á Dalatanga var meðalhitinn 4,3°C og mánuðurinn sá fjórði hlýjasti í 81 árs mælingasögu og á Teigarhorni 4,8°C og mánuðurinn sjötti í röðinni af 147.

Á Egilsstöðum var þetta 4,3° hlýrra en að meðaltali árin 1961-1990 og 3,3° hlýrra en 2009-2018, en 2,6-2,8 og 1,7-1,8 heitara fyrir tímabilin tvö á hinum stöðunum tveimur.

Minnsta hitavikið mældist í Papey, 1,5 stig. Lægsti meðalhiti í byggð var í Möðrudal, 2,6 gráður og lægsti meðalhiti á landinu á Gagnheiði, 1,2°.Hæsti loftþrýstingur mældist 1034,6 hPa á Egilsstaðaflugvelli sjöunda dag mánaðarins.

Hæsti dægurhiti austan lands var 18,1° á Egilsstöðum. Í byggð fór frost mest í -11,3° á Hallormsstað en -14,6° á Fjarðarheiði.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar