Eins og að pakka í ferðatösku en vita ekki hvort maður sé á leið til Spánar eða Grænlands
Íslendingar skrifuðu í byrjun vikunnar undir bráðabrigðafríverslunarsamning við Bretland sem inniheldur ákvæði um vöruviðskipti ef Bretar ganga úr Evrópusambandinu án samnings. Aðalsamningamaður Íslands segir mikla vinnu að baki samningnum enda hafi ýmsar ólíkar sviðsmyndir verið uppi við samningsgerðina.„Þessar viðræður hafa verið eins og að pakka í ferðatösku án þess að vita hvort maður sé á leiðinni til Spánar eða Grænlands. Þá þarf maður sýna fyrirhyggju og pakka í fleiri en eina tösku,“ segir Fljótsdælingurinn Ingólfur Friðriksson, sendiráðunautur í London og aðalsamningamaður sem áritaði samkomulagið fyrir Íslands hönd.
Íslendingar hafa að undanförnu unnið að gera samninga sem miða að því að tryggja íslenska hagsmuni ef Bretland yfirgefur Evrópusambandið án samnings. Fyrsta samkomulagið snýst um gagnkvæm réttindi íslenskra og breskra ríkisborgara í ríkjunum tveimur eftir útgöngu án samnings.
Tryggir kjör íslensks útflutnings
Annað samkomulagið fjallar um heimildir til flugs milli ríkjanna tveggja og það þriðja er fríverslunarsamkomulagið sem viðheldur til bráðabirgða núverandi tollkjörum í viðskiptum milli landanna.
„Ísland er stærsti birgir sjávarafurða í Bretlandi. Við flytjum árlega út um 55 þúsund tonn af fiski á breskan markað að verðmæti 35-40 milljarða króna. Þetta samkomulag veitir okkar útflutningsaðilum tryggingar um hvaða kjör.
Bretar hafa gefið út bráðabrigðatollskrá til næstu 12 mánaða, á meðan þeir fóta sig í viðskiptum án Evrópusambandsins. Í henni eru felldir niður tollar á nær öllu sem við flytjum út. Þeir geta hins vegar breytt henni hvenær sem er og þess vegna skiptir máli að hafa þetta samkomulag þannig íslenskur útflutningur lendi ekki í verri kjörum en í dag,“ segir Ingólfur um efni samningsins.
Varnagli ef Bretland fer út án samnings
Bretar samþykktu í þjóðaratkvæðagreiðslu sumarið 2016 að ganga úr Evrópusambandinu. Síðan hefur verið stefnt að þeir gengju formlega úr sambandinu í lok mánaðarins, en breskir stjórnmálamenn deila daglega með hvaða hætti það eigi að vera, með samningi við Evrópusambandið um réttindi svo sem ferðafrelsi og viðskiptafrelsi, eða án samnings sem gæti flækt bæði samgöngur og viðskipti.
Í íslenska utanríkisráðuneytinu hefur verið fylgst grannt með gangi mála í breska þinginu því hefði það samþykkt samning við ESB væri önnur staða uppi en samkomulagin þrjú taka á. Þá tæki við aðlögunartímabil til loka árs 2020 hið minnsta þar sem Bretland félli áfram undir EES-samningsins sem það væri aðildarríki ESB. Þá veittist einnig meira svigrúm til að semja um framtíðarsamskiptin. Það er hins vegar næst á dagskrá.
Bretarnir auðmjúkir í sinni vinnu
Ingólfur segir að þrátt fyrir erfitt ástand í breskum stjórnmálum hafi viðræðurnar gengið vel. „Það er töluverð vinna að baki. Viðræður hófust á haustmánuðum og hafa verið umfangsmiklar frá áramótum. Bretarnir hafa tekið þá viðskiptasamninga ESB sem þeir falla undir og reynt að afrita þá þannig þeir séu með samninga ef þeir skilja við sambandið án samnings.
Það hefur verið mjög gott að fást við þá. Þeir hafa verið einbeittir og auðmjúkir í sinni vinnu og nálgun því þeir gera sér grein fyrir að breytingarnar byggja á þeirra ákvörðun að ganga úr ESB. Íslensk stjórnvöld hafa líka alltaf nálgast stöðuna á þeirri forsendu að Bretland tók sína ákvörðun sem fullvalda ríki og virða ber þá ákvörðun.
Við höfum viljað efla gott samband til framtíðar, hvort Bretland er innan Evrópusambandsins eða utan og unnið að lausnum frekar en vandamálum. Bresku samningamennirnir hafa verið hafa verið þakklátir fyrir að við höfum tekið þann pól í hæðina. Maður hefur samt skynjað það á stundum að embættismönnunum sjálfum þykir nóg um pólitíska ástandið.“
Ingólfur undirritar samninginn á mánudag. Mynd: Utanríkisráðuneytið