Eitt einasta óstaðbundið opinbert starf skapast austanlands á árinu

Aðeins eitt óstaðbundið opinbert starf hefur flust austur á land síðan opnað var formlega fyrir umsóknir um styrki til fjölgunar óstaðbundinna opinberra starfa á landsbyggðinni í byrjun október. Sérfræðingur segir þó ekki ástæðu til að örvænta um of á þessu stigi.

Það var þann 10. október síðastliðinn sem formlega var opnað fyrir umsóknir um styrki til fjölgunar opinberra starfa á landsbyggðinni en 150 milljónir króna voru veittar af hálfu ríkisins til þess verkefnis.

Allar stofnanir ríkisins sem staðsettar eru á höfuðborgarsvæðinu geta sótt um slíka styrki meðan fjármagn leyfir en þeim fjármunum er ætlað að kosta ferðakostnað og leigu á aðstöðu fyrir viðkomandi ef vilji er til og mögulegt er að starfa annars staðar á landinu. Veita má slíka styrki til allt að þriggja ára en meginhugmyndin er að styrkja þannig búsetu í byggðum landsins.

Hingað til hefur einungis ein staða flust austur og þar um að ræða starf skjalavarðar Þjóðskjalasafns Íslands í Neskaupstað.

Góðir hlutir taka tíma

Sigurður Árnason, sérfræðingur á þróunarsviði Byggðastofnunar, sem sér mun um alla umsýslu vegna þessa verkefnis segir of skammt um liðið til að hægt sé að meta árangurinn.

„Enn sem komið er hafa umsóknirnar verið tiltölulega fáar enda skammt um liðið en við gerðum okkur meðal annars far um að kynna þetta meðal forstöðumanna ríkisstofnanna á höfuðborgarsvæðinu í haust áður en verkefnið hófst og þá líka vorum við að fá upplýsingar um hvað þeim fannst og hvernig þeir sæu slíkt fyrir sér. En það er einfaldlega ótímabært að segja til um hverju þetta skilar því þetta eru fyrstu skrefin og á mörgum stöðum tekur allt slíkt tíma.“

Sigurður viðurkennir að á þessu stigi séu ekki ýkja margar umsóknir um flutning opinberra starfa út á land fyrirliggjandi sem eftir eigi að taka tillit til en af þeim nær engin þeirra til starfs eða starfa austanlands.

„Þetta hefur ekki farið neitt hratt af stað en kannski gerist eitthvað í framhaldinu.“

Byggðastofnun hefur um átta ára skeið haldið utan um fjölda opinberra starfa í hverjum landsfjórðungi ár hvert. Síðustu tölur þeirra yfir landið allt eru frá 2022 og á þeim tíma reyndust 617 opinber störf á Austurlandi. Flest í Múlaþingi, 52%, næstflest í Fjarðabyggð, 41%, slétt 4,5% á Vopnafirði og 2,2% í Fljótsdal. Aðeins á Vestfjörðum og á Norðurlandi vestra voru færri í opinberum störfum.

Í mörgum tilfellum, þar sem ekkert er sérstakt húsnæði í eigu viðkomandi stofnunar, þurfa opinberir starfsmenn sem austur flytja að hafa aðgang að starfsaðstöðu á stöðum á borð við samvinnuhúsið Múlann í Neskaupstað. Mynd Austurbrú

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.