Eitt er víst – það verður gaman!

„Að mörgu þarf að huga og núna er aðalmálið að finna gott fólk á svæðinu sem skipar í nefndir og önnur fjölbreytt verkefni sem þarf að manna,“ segir Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Ungmennafélags Íslands, en Landsmót UMFÍ 50+ verður haldið í Neskaupstað næsta sumar.


Landsmót UMFÍ 50+ var fyrst haldið á Hvammstanga árið 2011. Síðasta sumar var það á Sauðárkróki og þá samhliða unglingalandsmótinu.

„Sótt er um þátttöku mótsins til stjórnar UMFÍ og margir hafa verið um hituna. UÍA hefur áður sótt um en ekki orðið fyrir valinu fyrr en núna og félagið fagnaði þeirri niðurstöðu innilega,“ segir Auður Inga og bætir því við að stefna UMFÍ sé að halda mótið um allt land.

„Það á reyndar við um alla viðburði UMFÍ, það er okkar stefna að dreifa þeim um landið og halda ekki tvo viðburði í röð á sama stað,“ en unglingalandsmótið var hefur í tvígang verið haldið á Egilsstöðum og síðast árið 2017.

Kröfurnar ekki eins miklar og fyrir unglingalandsmót

Auður Inga segir allan aðbúnað til mótshalda góðan í Neskaupstað. „Kröfurnar eru reyndar ekki eins miklar og fyrir Unglingalandsmót. Í Neskaupstað er til dæmis ekki mikil aðstaða fyrir frjálsíþróttir, en það er úrlausnarefni, ekki vandamál. Til dæmis var Landsmót 50+ haldið í Hveragerði sumarið 2017, en þar er enginn frjálsíþróttavöllur. Við mótsins var útbúinn völlur í anda þeirra sem tíðkuðust á árum áður. Margir gestir mótsins kunnu vel að meta það og rifjuðu þeir eldri upp að svona hafði þetta verið í ungdæmi þeirra. Þá þurfti ekkert prjál heldur var hægt að keppa úti við frekar einfaldar aðstæður. Við eigum eftir að skoða málið betur í Neskaupstað og útfæra völlinn ásamt öðru. Ég hef fulla trú á að það gangi vel á Neskaupstað í samvinnu við UÍA og Fjarðabyggð.“

Landsmótið hefur mikið gildi fyrir þátttakendur og samfélagið

Auður Inga segir Landsmót UMFÍ 50+ hafa mikið gildi, bæði fyrir þátttakendur og samfélagið. „Slíkt mót skiptir máli fyrir fólk sem hefur bæði gaman af því að hreyfa sig og hitta aðra. Samvera og hreyfing eru gegnumgangandi og því ætti fólk að geta átt saman skemmtilega daga í Neskaupstað og skapað góðar minningar. Einnig hefur slíkur viðburður mikla þýðingu fyrir samfélagið og ætti mótið að skilja eftir sig uppbyggingu og þekkingu auk þess hversu gaman það er að taka á móti gestum sem sumir hverjir myndu að öllu jöfnu ekki leggja leið sína austur.“

Undirbúningur er hafinn

Formlegur undirbúningur fyrir mótið er hafinn. „Við erum farin að vinna í skipulagningu mótsins erum að skoða ýmsar nýjunar, en þær hafa alltaf verið einhverjar, svo sem nýir viðburðir eða greinar sem henta mismunandi aldursflokkum. Eitt er víst – það verður gaman! Við hvetjum alla til að kynna sér hvað verður í boði,“ segir Auður Inga að lokum.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar