Eitt lengsta sjúkraútkall í sögu Fjarðabyggðar

slokkvilid_fjardabyggdar.jpg
Sjúkrabíll í umsjá slökkviliðs Fjarðabyggðar var sólarhring í útkalli í byrjun vikunnar þar sem hann tepptist í Neskaupstað sökum ófærðar. Slökkviliðsstjórinn segir þetta þann lengstra sjúkraflutning sem liðið hafi farið í.

„Þetta mun vera lengsti sjúkraflutningur  innan Fjarðabyggðar sem við höfum sinnt, rétt um sólarhringur frá því að bíllinn fór í útkallið og þar til hann var kominn heim aftur á Fáskrúðsfjörð,“ segir Guðmundur Helgi Sigfússon, slökkviliðsstjóri.

Bíllinn, sem um ræðir, er vanalega staðsettur á Fáskrúðsfirði og fór til Norðfjarðar á sunnudagskvöld með sjúkling. Þar varð hann innlyksa þegar vegurinn yfir Oddsskarð lokaðist. 

„Hann komst ekki til baka fyrr en seinni partinn á mánudag þegar snjóruðningstækjum tókst að opna skarðið í örstutta stund og fylgdi bílum yfir. Það lokaðist jafnharðan aftur,“ segir Guðmundur Helgi.

„Sjúkraflutningamennirnir gistu á Norðfirði en Fáskrúðsfjörður og Stöðvarfjörður voru dekkaðir á meðan með sjúkrabílum sem staðsettir eru á Hrauni við Reyðarfjörð.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar