Eitt smit skráð á Austurlandi
Eitt Covid-19 smit er skráð á Austurlandi, samkvæmt nýjustu tölum. Viðkomandi dvelur þó ekki í fjórðungnum.Þetta kemur fram í tilkynningu aðgerðastjórnar almannavarnanefndar Austurlands. Sá smitaði er með lögheimili á Austurlandi en dvelur í öðrum landshluta og er í einangrun þar. Skráningunni á covid.is verður breytt hvað þetta varðar innan skamms.
Aðgerðastjórnin hvetur Austfirðinga til að gæta varkárni í hvívetna sem fyrr, muna fjarlægðarmörk, handþvott og sprittnotkun.
Þá áréttar hún tilmæli stjórnvalda um að ferðast ekki til eða frá höfuðborgarsvæðinu nema brýna nauðsyn ber til. Ástandið sé enn tvísýnt og mikilvægt að fólk hegði sér samkvæmt því.