Eitt tiltekið bókunarkerfi veldur ónákvæmni gistináttatalna Hagstofunnar
Hagstofa Íslands hefur um hríð átt í vandræðum með að fá hárnákvæmar tölur um þjóðerni gesta sem dvelja nótt eða fleiri á gististöðum landsins en orsökin er eitt tiltekið bókunarkerfi sem ekki skráir þjóðerni sérstaklega.
Þetta staðfestir Magnús Kári Bergmann hjá Hagstofunni við Austurfrétt en tilefnið er frétt frá því í gær þar sem ferðaþjónustuaðili á Borgarfirði eystra hafði uppi efasemdir um að tölur stofnunarinnar um íslenska ferðamenn austanlands væri réttar. Vísaði hann þar í gestatölufjölda frá ágústmánuði þar sem Hagstofan færði til bókar að tæplega 40% allra gesta á gististöðum Austurlands hefðu verið Íslendingar. Það taldi hann beinlínis fráleitt.
Viðkomandi hefur ekki rangt fyrir sér að sögn Magnúsar því Hagstofan hefur lengi vitað af þessu vandamáli og er sífellt að leita leiða til bóta.
„Þetta er vandamál sem við þekkjum og veldur oftalningu á Íslendingum. Sérstaklega er það eitt bókunarkerfi sem hefur valdið okkur vandræðum. Það nánast eina kerfið sem skilar inn til okkar upplýsingum um óþekkt þjóðerni en gallinn sá að okkar eigin kerfi taka slíkt ekki gilt því þjóðerni manna á auðvitað alltaf að fylgja. Svo var kerfið einhverra hluta vegna forritað á þann veg að í þeim tilvikum eru viðkomandi skráðir Íslendingar. En við hins vegar skoðum gaumgæfilega ef gögn einhvers staðar frá eru skrýtin til dæmis ef hlutfall Íslendinga er óeðlilega hátt. Þá tökum við niður fjölda Íslendinga og dreifum eftir ákveðinni aðferðarfræði niður á önnur þjóðerni. Þannig að það er ekki eins og við látum undarlegar tölur frá okkur gagnrýnislaust.“
Magnús segir að önnur bókunarkerfi skili frá sér þjóðerni í öllum tilvikum og því sé einungis vandræði með þetta ákveðna kerfi.
„Við höfum verið í sambandi við forritara þessa vegna sem sjá um gagnakerfi það sem er í sambandi við þessi bókunarkerfi öll og höfum verið að reyna að fá þá til að gera á þessu breytingar. Þannig að við erum sannarlega að reyna að færa þetta til betri vegar enda höfum við sjálfir haft áhyggjur af því að of margir Íslendingar séu skráðir í þessum tölum. Hins vegar eiga fjöldatölurnar að vera hárréttar og vandamálið snýr aðeins að þjóðerninu.“
Færri Íslendingar kaupa sér gistingu austanlands en tölur Hagstofunnar gefa reglulega til kynna. Mynd Hengifoss/VisitAusturland