Ekkert að vanbúnaði við að koma á beinu millilandaflugi

Íslenska ríkið mun á þessu ári veita samanlagt 40 milljónum til þess að koma á beinu millilandaflugi um vellina á Akureyri og Egilsstöðum. Menningar- og viðskiptaráðherra segir Austfirðinga hafa unnið þá heimavinnu sem þurfi til að koma á slíku flugi og tækifæri séu til staðar þegar ferðaheimurinn vakni á ný eftir heimsfaraldur.

Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, undirritaði í gær samning þess efnis við Austurbrú og Markaðsstofu Norðurlands á Egilsstaðaflugvelli.

Hvor stofnun fær 20 milljónir í ár til að vinna að markaðssetningu annars vegar Egilsstaðavallar, hins vegar Akureyrarvallar. „Síðan tökum við stöðuna. Kannski tekst þetta á þessu ári,“ segir Lilja.

„Þetta samkomulag þýðir aukna markaðssókn fyrir Austurland og Norðurland. Við viljum stuðla að millilandaflugi þannig þessir flugvellir nýtist. Um leið eykst þjónusta við íbúa á svæðunum og við fáum inn ferðamenn.

Niceair hefur boðað flug frá Akureyri og Voigt er þar með reglulegar ferðir í vetur. „Við sjáum að á sumrin fara 50% þeirra ferðamanna sem koma til landsins norður en 15% á veturna. Á sumrin hefur verið beint flug þangað. Við vitum að í nútímasamfélagi skiptir beint flug miklu máli.“

Góður undirbúningur eystra

Lilja hrósaði Austfirðingum fyrir þá undirbúningsvinnu sem þeir hafa lagt í varðandi beint flug síðustu ár. „Hér hafa orðið miklar framfarir í ferðaþjónustunni. Á Austurlandi eru topphótel, mjög góður matur, flott afþreying og glæsileg söfn. Svæðið er orðið mjög ákjósanlegt fyrir bæði innlenda og erlenda ferðamenn. Mín er von að nú verði gefið þannig að takist að koma á beinu flugi og við munum taka þátt í því. Okkur er ekkert að vanbúnaði.

Það er tilkomumikið hve vel fólið hér hefur unnið sínar greiningar og heimavinnu. Það er búið að skoða hvaða ferðalangar eru líklegastir til að koma hingað, hvaða flugfélög og hvaða flugvellir henta best. Næsta skref er að koma þessu á framfæri til þeirra sem vilja koma hingað með að sækja fundi erlendis.“

Uppsöfnuð ferðaþörf

Ferðalög í heiminum hafa látið á sjá vegna Covid-faraldursins síðustu tvö ár. Lilja er þó í hópi þeirra sem telja tækifæri vera fyrir hendi í fluginu núna.

„Það er uppsöfnuð þörf fyrir ferðalög því margir hafa ekkert farið í tvö ár. Þá vill fólk gera eitthvað sem það hefur dreymt um og Ísland er þannig áfangastaður. Við höfum séð að þeir ferðamenn sem koma hingað dvelja lengur og neyta meira og ég held að það sé vísbending um það sem verði næstu 2-3 ár.“

Árás Rússa á Úkraínu slær þó á bjartsýnina. „Við vitum ekki hvað þau átök þýða. Óvissan er slæm. Ef olía hækkar í verði verður enn dýrara að fljúga. Hópurinn sem Íslands hefur þó þokkalegar tekjur og hefur hefur stefnt hingað í töluverðan tíma.“

Flugvöllunum á Akureyri og Egilsstöðum hefur oft verið stillt upp sem andstæðum. Í ljósi þess að boðað er flug um Akureyri vakna spurningar hversu raunhæft sé að einnig verði beint flug um Egilsstaði.

„Ég held það sé raunhæft. Ef allt gengur upp þá verður aukin eftirspurn að koma til landsins þannig við gæti skort mannafla eða ekki náð að byggja innviði nógu hratt upp. Við getum nefnt Stuðlagil sem dæmi, það var allt í einu uppgötvað og verið kapphlaup við tímann að byggja upp innviði.“

Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands, Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra og Jóna Árný Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar, við undirritun samningsins í flugturninum á Egilsstöðum í gær.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.