Ekkert lögbann á fiskveginn
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 24. júl 2012 15:44 • Uppfært 08. jan 2016 19:23
Sýslumaðurinn á Seyðisfirði hefur vísað frá kröfu landeigenda neðan við svonefndan Steinboga í Jökulsá á Dal að lögbann verði sett á framkvæmdir við fiskveg um Steinbogann.
Þær upplýsingar fengust hjá embættinu í dag að lögbannskröfunni hefði verið vísað frá þar sem hún hefði ekki verið talin uppfylla skilyrði 24. greinar laga um kyrrsetningu, lögbann og fleira.
Þar segir meðal annars að lögbann megi leggja við „byrjaðri eða yfirvofandi“ athöfn sem brjóti eða muni brjóta gegn lögvörðum rétti hans.
Framkvæmdir hófust við fiskveginn í byrjun júní en sveitarfélagið Fljótsdalshérað veitti framkvæmdaleyfi síðasta haust. Eftir að framkvæmdirnar hófust óskuðu framkvæmdaaðilar eftir breytingum á framkvæmdaleyfinu. Þær hafa ekki enn verið veittar en unnið er innan gildandi framkvæmdaleyfis.
Deilur hafa verið innan Veiðifélags Jökulsár á Dal milli landeigenda ofan og neðan Steinbogans um áhrif og ávinning framkvæmdanna.