Ekkert nýtt smit á Austurlandi

Ekkert nýtt covid-19 smit hefur greinst á Austurlandi síðustu tvo daga og þeim einstaklingum fækkar sem eru í sóttkví. Talsvert mörg sýni af svæðinu eru ókönnuð. Heimilt er nú að greina frá fjölda smitaðra eftir búsetusvæðum.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í tilkynningu aðgerðastjórnar almannavarna á Austurlandi í dag.

Síðast greindist nýtt smit í fjórðungnum á sunnudags. Vika er í dag frá því að fyrsta smitið á svæðinu greindist en þau eru orðin sex í heildina. Enginn hinna smituðu telst alvarlega veikur.

Talsvert mörg sýni, sem tekin hafa verið á svæðinu, eru enn til rannsóknar. Þannig er farið með fleiri sýni víðsvegar af landinu og er niðurstöðu beðið.

Í sóttkví á svæðinu eru 198 manns, 28 færri en í gær. Búist er við að fjöldi þeirra sem eru í sóttkví sveiflist nokkuð næstu daga. Ef smit greinist í einhverju þeirra fjölda sýna sem til rannsóknar eru fjölgar væntanlega þeim sem eru í sóttkví. Þeir sem snéru heim eftir dvöl erlendis eru á móti margir að ljúka sínum tíma í sóttkví sem leiðir til fækkunar í hópnum.

Austfirðingar hafa óskað eftir því við aðgerðastjórnina að opinbera í hvaða sveitarfélögum smit greinist. Það hefur ekki verið gert, meðal annars með vísan í persónuvernd, eins og Austurfrétt greindi síðast frá í dag.

Sú afstaða hefur nú verið endurskoðuð af sóttvarnalækni og persónuverndarfulltrúa embættis landlæknis. Niðurstaðan er að hagsmunir almennings séu að fá sem bestar upplýsingar um stöðu mála hverju sinni. Aðgerðastjórninni er því heimilt að greina frá búsetu hinna smituðu. Staðfest hefur verið að þeir sex búa allir á Fljótsdalshéraði.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.