Ekkert sem kallar á að leitað verði að loðnu strax eftir áramót

Uppsjávarveiðiskipið Aðalsteinn Jónsson kom til hafnar á Eskifirði snemma í morgun eftir sex daga við leit að loðnugöngu. Óverulegt magn fannst í ferðinni og engar upplýsingar sem kalla á að strax verði farið til loðnuleitar eftir áramótin.

Leitað var norður af landinu, frá Langanesi vestur að Kolbeinseyjarhrygg. Guðmundur Óskarsson, sviðsstjóri hjá Hafrannsóknastofnun, segir að helst hafi mælst loðna við hrygginn en magn hennar verið óverulegt og ekki talið þess virði að fara lengra til vesturs.

Aðalmarkmið leiðangursins var að kanna hversu austarlega loðnan væri komin til að skipuleggja betur loðnuleit í janúar. Guðmundur segir að svo virðist að loðnan sé ekki komin mjög austarlega og þar með sé ekkert sem kalli á að strax verði farið til loðnuleitar í byrjun nýs árs.

Nokkra daga tekur að vinna betur úr niðurstöðum leiðangursins. Tekin voru sýni til að kanna hversu þroskuð loðnan er orðin. Seinni hluta vikunnar má vænta nánari tillagna um hvernig loðnuleit verði háttað á næsta ári.

Ekki fannst nægjanlegt magn af loðnu í haustleiðangri þannig hægt væri að gefa út byrjunarkvóta fyrir árið 2025 en ekki mun hafa vantað mikið upp á. Engin loðna veiddist á þessu ári.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.