Ekkert sem tefur Fjarðarheiðargöng

Fjarðarheiðargöng verða opnuð seinni hluta árs 2029 ef allt gengur að óskum. Ekkert bendir til annars en undirbúningur fyrir gangagröftinn geti hafist síðla árs 2022 eins og stefnt hefur verið að.

Þetta kom fram á upplýsingafundi fyrir íbúa Seyðisfjarðar í gær. Þar fór Freyr Pálsson, frá hönnunardeild Vegagerðarinnar, yfir stöðuna við undirbúning ganganna.

Forhönnun ganganna lauk í sumar og hefst verkhönnun í haust. Unnið er frummatsskýrslu fyrir mat á umhverfisáhrifum. Matið sjálf verður þó væntanlega ekki tilbúið fyrr en 2022.

Þegar það liggur fyrir er hægt að ráðast í útboð og samninga sem yrði klárað veturinn 2022-23. Þetta þýðir að gangagröfturinn sjálfur hefst ekki fyrr en haustið 2023 en hægt er að byrja forvinnu fyrir hann ári fyrr.

Áætlaður framkvæmdatími yrði sjö ár, þar af tæki gangagröfturinn þrjú ár. Að sögn Freys verða göngin opnuð seinni hluta árs 2029 gangi allt samkvæmt áætlun.

Hann sagði einkum þrennt sem gætu hægt á verkinu. Jarðhiti, miklir vatnslekar og þykk setlög sem eru veikari en basaltbergið sjálf. Sá hiti sem mælst hefur í berginu í Fjarðarheiði er svipaður og í Norðfjarðargöngum en minni en í Fáskrúðsfjarðargöngum. Reynslan úr öðrum austfirskum göngum er að lítið sé um vatnsleka en meira um setlög. Vitað er um tvö þykk setlög á gangaleiðinni undir Fjarðarheiði og því reiknað með að þau tefji fyrir.

Nokkrir endar eru enn ófrágengnir. Búið er að velja veglínu við Seyðisfjörð og verður farið í gegnum núverandi golfvöll til að draga úr halla vegarins. Með því minnkar hallinn úr 7% í 6%, sem Freyr sagði vera þó nokkurn mun. Við Egilsstaði stendur valið enn milli þriggja veglína.

Göngin sjálf hafa verið hönnuð með sama sniði og Vaðlaheiðargöng sem þar sem 9,5 metrar eru milli veggja. Í hönnun ganganna er gert ráð fyrir plássi fyrir lagnir fyrir bæði heitt og kalt vatn.

Gauti Jóhannesson, forseti sveitarstjórnar Múlaþings, sagði að í samtölum við ráðherra eftir skriðuföllin á Seyðisfirði í desember hefði verið lögð áhersla á mikil lukka hefði verið að Fjarðarheiðin var fær þegar Seyðisfjörður var rýmdur eftir stóru skriðuna 18. desember. Það hefði sýnt mikilvægri greiðra samganga.

Hann sagðist hafa fylgst þessu eftir í samtali við samgönguráðuneytið í síðustu viku og þar hefði verið ljóst að engar fyrirætlanir væru um annað en hefja framkvæmdir samkvæmt áætlun 2022.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.