Ekkert smit á Austurlandi
Ekkert virkt Covid-19 er lengur á Austurlandi og enginn er í sóttkví. Austurland er eini landshlutinn sem státar af þessum árangri.„Áfram er ástandið gott á Austurlandi og með samstilltu átaki gerum við okkar í sameiningu til að svo megi verða áfram,“ segir í tilkynningu aðgerðastjórnar almannavarnanefndar Austurlands.
Þetta þýðir að tveir einstaklingar sem greindust með veiruna í landamæraskinum í Leifsstöð þann 30. október eru lausir við veiruna.
Aðgerðastjórn leggur þó áfram að Austfirðingum að gæta að persónulegum smitvörnum, halda fjarlægð, nota grímur og spritt auk þess að þvo hendur vandlega. Ástandið sé að batna á landinu í heild, en áfram sé þörf á þrautseigju og þolinmæði.
Lögreglan hefur undanfarna daga farið í fjölda verslana og veitingahúsa á Austurlandi til að líta eftir hvernig sóttvarnareglum sé framfylgt. Í langflestum hefur reglunum verið fylgt og ábendingum vel tekið. Þessu eftirliti verður haldið áfram.
Þá hefur aðgerðastjórnin áréttað mikilvægi þess að nemendur í grunn- og leikskólum blandist ekki saman utan skipulagðs skólastarfs. Á þar meðal annars við um opna leik-, spark- og íþróttavelli sveitarfélaga. Eru forráðamenn barna hvattir til að huga að þeim mikilvæga árangri sem náðst hefur.
Von er á Norrænu til Seyðisfjarðar í fyrramálið. Þar greindist einn farþegi með Covid-19 smit við brottför frá Hirthals í Danmörku. Sá hefur verið í einangrun um borð og ekki er talið að aðrir farþegar séu útsettir fyrir smiti.
Þeir verða þó allir skimaðir við komuna og fara síðan í sóttkví fram að annarri sýnatöku. Sá smitaði fer í aðra sýnatöku sem ætlað er að greina hvort smitið sé virkt eða gamalt. Sé það virkt verður hann áfram í einangrun og undir eftirliti heilbrigðisstarfsfólks meðan veikindin vara.