Ekkert smit í skimuninni

Ekkert þeirra rúmlega 1400 sýna sem tekin voru í samstarfi Heilbrigðisstofnunar Austurlands og Íslenskrar erfðagreiningar um síðustu helgi reyndist jákvætt. Ekkert nýtt smit hefur bæst við síðasta sólarhringinn á svæðinu og einn til viðbótar er laus úr einangrun.

Þetta kemur fram í tilkynningu aðgerðastjórnar almannavarnanefndar Austurlands.

Smit eru átta talsins á svæðinu, öll á Fljótsdalshéraði. Þrír eru útskrifaðir af þeim sem fengið hafa veiruna, fimm eru enn í einangrun.

Síðasta smit kom upp fyrir tveimur dögum. Sá sem greindist hafði verið í sóttkví og gekk smitrakning vel.

Í sóttkví eru 28, sem er örlítil fjölgun. Í tilkynningunni kemur fram að flestir þeirra sem bæst hafi við hafði verið að koma erlendis frá.

Alls voru tekin 1415 sýni í rannsókn Íslenskrar erfðagreiningar, í samstarfi við HSA, á Austurlandi um síðustu helgi. Ekkert smit greindist í þeim hópi.

Aðgerðastjórnin ítrekar þó við Austfirðinga að halda vöku sinni. „Þetta eru góðar fréttir en undirstrika um leið mikilvægi þess að halda vöku sinni og einbeitingu. Lítið má út af bregða eins og dæmin sanna og áréttað hefur verið í fjölmiðlum meðal annars og af stjórnendum heilbrigðisstofnana nú nýverið. Förum því varlega og fylgjum leiðbeiningum áfram og líkt og við höfum gert fram til þessa.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar