Ekkert verður af kaupum Múlaþings á landi Egilsstaða 2

Þrátt fyrir áhuga landeigenda að jörðinni Egilsstöðum 2, til suðurs af þéttbýlinu á Egilsstöðum, að selja þá jörð ber svo mikið í milli á milli þeirra og sveitarfélagsins Múlaþings með verðhugmyndir að viðræðum var hætt áður en þær komust á formlegt stig.

Þetta staðfestir Björn Ingimarsson, sveitarstjóri Múlaþings við Austurfrétt.

Unnið hefur verið að því síðan síðasta sumar að kaupa umrætt land eftir ábendingar þar að lútandi frá umhverfis- og byggðaráði sveitarfélagsins. Sár skortur er á atvinnulóðum á Egilsstöðum og var jörð Egilsstaða 2 talin einn vænsti kosturinn til að ráða bót á því að mati ráðsins.

Féllst sveitarstjórn á ábendingar umhverfis- og byggðaráðs en þó með þeim fyrirvara að óháður sérfræðingur yrði fenginn til að vinna verðmat á umræddu landi eftir að landeigendur höfðu opinberað sínar hugmyndir um söluverðmætið.

Álit sérfræðings var svo fengið og í kjölfarið hófust óformlegar viðræður við eigendur landsins. Þær viðræður stóðu stutt enda munaði töluverðu á verðmati sérfræðingsins og þeirri upphæð sem landeigendur sáu fyrir sér.

Jörð Egilsstaða 2 er gróflega svæðið kringum bláa depilinn á meðfylgjandi korti. Verðhugmyndir Múlaþings fyrir svæðið er fjarri því sem landeigendur telja viðunandi. Skjáskot Map.is

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.