Ekki að ástæðulausu að brugðist var hart við mislingum
Sóttvarnalæknir segir fulla ástæðu hafa verið til að bregðast hart við þegar mislingasmit barst til Íslands fyrir mánuði. Tveir einstaklingar hafa veikst alvarlega í mestu útbreiðslu sem veiran hefur náð hérlendis í rúm fjörtíu ár.„Af þeim einstaklingum hafa greinst að þessu hafa tveir orðið mjög veikir, barn og fullorðinn og þurft að leggjast inn á sjúkrahús og fá súrefni.
Við eigum sögur um mikla mislingafaraldra hérlendis sem ollu miklum skaða. Það er ekki að ástæðulausu að við brugðumst hart við og reyndum að hindra að hér yrði faraldur,“ segir Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir.
Þórólfur hélt í gær fræðsluerindi um bólusetningar á vegum Heilbrigðisstofnunar Austurlands í tilefni af 20 ára afmæli stofnunarinnar í ár. Erindið hafði verið ákveðið áður en mislingaveiran stakk niður fæti.
Áherslan á að vernda samfélagið
Í dag var sjöunda tilfelli mislinga staðfest, í að minnsta kosti tveimur tilfellum hefur verið um væg veikindi að ræða sem komið geta fram hjá bólusettum einstaklingum.
„Ekkert bóluefni veitir 100% vörn en flest vel yfir 90%. Þess vegna þarf ekki að koma á óvart þótt bólusettur einstaklingur sýkist. Það er hins vegar betra að hafa 95% vörn en enga,“ sagði Þórólfur.
Að undanförnu hefur verið lögð áhersla að ná til einstaklinga sem aldrei hafa fengið bólusetningar gegn mislingum eða veiruna yfir höfuð. „Ein sprauta veitir 93-95% vernd og tvær 97% vernd. Þess vegna höfum við lagt frekar áherslu á að allir séu með eina frekar en margir með tvær og nokkrir með enga. Það veitir samfélaginu betri vernd.“
Talað er um hjarðónæmi þar sem samfélag hefur náð 95% vörn, þeirri sem þarf til að vernda óbólusetta en einstaklingar með bælt ónæmiskerfi geta ekki fengið bólusetningar. „Ég held að við séum á þeim stað gagnvart mislingum.“
Allir fá einhvern tíma mislingaveiruna
Þegar sjúkdómar á borð við mislinga skjóta upp kollinum er gripið til ýmissa varúðarráðstafana. Þær eru misjafnar eftir hvaða óværa er á ferðinni og tekur alltaf vissan tíma að koma í gang. Að undanförnu hafa til dæmis einstaklingar verið settir í sóttkví, verið skipað að halda sig heima og forðast samneyti við aðra en sína nánustu sem séu örugglega bólusettir.
Þórólfur benti á að Ísland væri eitt fárra ríkja sem notaði enn slíka aðferð, önnur teldu hana einfaldlega tæknilega ómöguleika, sem hún verður ef mislingarnir breiðast víða út. „Við höfum verið með um 70 manns heima allt í allt. Það hefur gengið vel, ykkur hefur tekist þetta frábærlega,“ sagði hann við heilbrigðisstarfsfólk sem sat fyrirlesturinn.
Hann lagði líka áherslu að áfram yrði haldið uppi öflugum vörnum gegn mislingum. Hann benti á íslenskar frá fyrri tíð þar sem reglulega komu upp faraldar. Sú kynslóð sem veiktist myndaði ónæmi og veiran fór aftur á stjá þegar næsta kynslóð óx úr grasi.
„Ef enginn hefur dáið úr mislingum í fjölskyldunni drögum við þá ályktun að enginn deyi úr mislingum. Dánartíðnin er hins vegar 0,1-1% sem er dálítið mikið og 10% hljóta aðrar alvarlegar afleiðingar, svo sem skaða á heila eða lungum. Mislingar eru það smitandi að þeir sýkja alla einhvern tíma.“