Ekki breytinga að vænta á leiðakerfi

Samruni Air Iceland Connect við Icelandair mun ekki hafa áhrif á þjónustu við viðskiptavini. Aðeins er um rekstrarlega ákvörðun að ræða.

Þetta kemur fram í svari Ásdísar Ýr Pétursdóttur, samskiptastjóra Icelandair Group við fyrirspurn Austurfréttar.

Í hádeginu var tilkynnt um að allur rekstur Air Iceland Connect, sem rekinn hefur verið á kennitölu Flugfélags Íslands ehf., yrði færður undir Icelandair. Með því var vísað til stoðdeilda svo sem sölu, markaðssetningar, fjármála og tæknimála sem til þessa hafa verið aðskilin. Þá verður starf framkvæmdastjóra Air Iceland Connect lagt niður.

Air Iceland Connect hefur þjónustað innanlandsflug og flug til Grænlands en Icelandair alþjóðlegt farþegaflug. Bæði fyrirtækin heyra undir Icelandair Group samsteypuna.

„Við erum að sameina sambærilega rekstrarþætti félaganna á einn stað í stað tveggja áður. Samþættingin mun eiga sér stað á næstu vikum en þessi ákvörðun hefur engin áhrif á viðskiptavini eða leiðakerfið nema þá til enn frekari styrkingar á þjónustunni,“ segir Ásdís Ýr.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.