Ekki frekari niðurgreiðslur á flugi til Vopnafjarðar

Flug til Vopnafjarðar fellur ekki undir áformaða niðurgreiðslu ríkisins á flugferðum íbúa á landsbyggðinni. Flugið þangað er þegar styrkt með þjónustusamningi við ríkið.

Þetta kemur fram í svari samgönguráðuneytisins við fyrirspurn Austurfréttar.

Til stendur að hefja niðurgreiðslu innanlandsflugs þann 1. september þannig að ríkið greiði 40% fargjalds íbúa sem búa í meira en 270 km frá Reykjavík. Fyrsta árið á hver einstaklingur rétt á einni ferð fram og til baka sem verði þrjár ferðir strax á næsta ári. Endurgreiðsluhlutfallið er hið sama óháð því hvaða fargjald er í boði og einstaklingurinn kaupir.

Ríkið styrkir þegar flug til nokkurra áfangastaða með sérstökum samningum þar sem fargjöld og skilmálar eru ákveðnir. Meðal þeirra staða eru Vopnafjörður, Þórshöfn og Hornafjörður.

Fyrirhuguð niðurgreiðsla nær ekki til þessara samninga, en markmið hvors tveggja hið sama, að gera tryggja innanlandsflug og gera að fýsilegum kosti.

Norlandair flýgur eina ferð milli Akureyrar og Vopnafjarðar alla virka daga. Farþegar sem vilja nýta sér flugið bóka í gegnum vef Air Iceland Connect og fljúga með því milli Reykjavíkur og Akureyrar.

Samkvæmt athugun Austurfréttar er algengt verð á leiðinni Reykjavík-Vopnafjörður svipað og á leiðinni Egilsstaðir Reykjavík. Það sem eftir er þessa mánaðar er algegnt verð 23-24 þúsund krónur á hvern fluglegg en lækkar niður í 16 þúsund á legg þegar horft er lengra fram í tímann. Verð á flugleiðinni Akureyri-Vopnafjörður er 6.200 krónur á hvern fluglegg.

Mynd: N4/Hjalti Stefánsson


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar